Jón Daði Böðvarsson hefur yfirgefið Wrexham eftir að samningur hans við félagið rann út um áramótin. Hann lék sex leiki fyrir Wrexham án þess að skora.
Hann er búinn að finna sér nýtt lið en hann hefur samið við Burton út tímabilið. Hann verður klár í slaginn fyrir leik liðsins gegn Crawley á laugardaginn.
Burton er í ensku C-deildinni eins og Wrexham en Burton er á botni deildarinnar. Síðasta sumar eignaðist hópur fjárfesta frá Norðurlöndunum, Nordic Football Group, félagið en þar á meðal eru sex Íslendingar.
„Það er frábært að vera kominn hingað. Ég hlakka mikið til að hitta liðsfélagana og vonandi get ég hjálpað liðinu að klifra upp töfluna. Það er mikil fjölskyldustemning í félaginu og sem mikill fjölskyldumaður get ég ekki beðið eftir því að byrja," sagði Jón Daði við undirskriftina.