Kuldakastið sem verið hefur á Íslandi það sem af er aprílmánuði verður til þess að grasvellir landsins eiga langt í land þó svo keppni sé hafin í Bestu-deild karla.
Um komandi helgi áttu að fara fram þrír leikir á grasi í deildinni, þeir fyrstu þrír þetta sumarið, og ljóst að það gengur treglega. KSÍ hefur hafist handa við að bregðast við þessu í samráði við félögin en eins og áður hafði komið fram var búið að færa leik KR og Fram á Avis-völlinn í Laugardal, heimavöll Þróttar. Leikurinn fer fram á laugardaginn klukkan 16:15.
Mörgum þótti það vonbrigði því þarna er endurkomuleikur Rúnars Kristinssonar þjálfara Fram gegn sínu gamla liði KR, og leikurinn fer því ekki fram á Meistaravöllum.
Nú er búið að færa næsta leik, viðureign FH og HK átti að fara fram í Kaplakrika á laugardaginn klukkan 16:15 en gult grasið getur ekki tekið á móti leiknum.
Því hefur hann verið færður í Kórinn og flýtt um rúmlega tvo tíma, hefst klukkan 14:00. Fullkomið fyrir fótboltaáhugamenn sem geta því séð báða leiki laugardagsins. Með tilfærslunni verður hann heimaleikur HK og liðin mætast síðar í sumar í Kaplakrika.
Þriðji grasleikurinn er viðureign ÍA og Fylkis á sunnudaginn klukkan 17:00. Hann fer fram á ELKEM-vellinum, heimavelli ÍA á Akranesi eins og staðan er núna. Engu hefur verið breytt þegar þetta er skrifað.
föstudagur 19. apríl
19:15 Stjarnan-Valur (Samsungvöllurinn)
laugardagur 20. apríl
14:00 HK-FH (Kórinn)
16:15 KR-Fram (AVIS völlurinn)
sunnudagur 21. apríl
14:00 KA-Vestri (Greifavöllurinn)
17:00 ÍA-Fylkir (ELKEM völlurinn)
19:15 Víkingur R.-Breiðablik (Víkingsvöllur)
Athugasemdir