banner
   lau 16. maí 2020 10:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Grín var gert að útliti Chadwick: Stressaður fyrir föstudögum
Chadwick í leik með Manchester United.
Chadwick í leik með Manchester United.
Mynd: Getty Images
'Sem 19 eða 20 ára gamall drengur, hefði það verið mögulegt fyrir mig að tala við einhvern hjá BBC og fá þá til að hætta að tala um mig?'
'Sem 19 eða 20 ára gamall drengur, hefði það verið mögulegt fyrir mig að tala við einhvern hjá BBC og fá þá til að hætta að tala um mig?'
Mynd: Getty Images
Luke Chadwick, fyrrum leikmaður Manchester United, er í viðtali við The Athletic sem birtist í gær þar sem hann talar um hvernig grimmir brandarar um útlit hans í sjónvarpsþætti á BBC höfðu slæm áhrif á hann sem manneskju.

Chadwick spilaði 39 leiki á ferli sínum með United en þá var hann í liði með mönnum eins og Roy Keane, David Beckham, Ryan Giggs og Gary Neville. Þegar Manchester United varð enskur meistari tímabilið 2000/2001 spilaði Chadwick 22 leiki.

Mikið var gert grín að Chadwick í sjónvarpsþættinum They Think It's All Over á BBC á sínum tíma. Þátturinn var vinsæll, en fyrir honum fór grínistinn Nick Hancock og komu til að mynda Gary Lineker og Ian Wright fyrir í honum. Chadwick segir að grín á kostnað hans hafi farið það illa með sjálfstraustið að það var orðið erfitt fyrir hann að fara út í búð.

„Þegar þeir fóru að tala um útlit mitt, þá voru þeir að tala um mig fyrir framan milljónir manna. Ég man þegar þetta gerðist í fyrsta skipti og einhver sendi skilaboð á mig og sagði: 'Gaman að sjá þig í They Think It's All Over'. Þetta kom mér frekar mikið á óvart. Ég horfði á þetta vikuna á eftir og sá fólk vera að hlæja að að þessum bröndurum um mig. Þetta var fyndið fyrir annað fólk, en ekki fyrir mig."

„Ég var stressaður fyrir öllum föstudögum (þegar þættirnir voru í sjónvarpinu). Ég var ekki gaur með mikið sjálfstraust fyrir og þátturinn gerði illt verra. Ég horfði á þáttinn með öðru auganu og vonaðist til þess að þeir myndu hætta. En þeir gerðu það aldrei. Þetta hélt bara áfram og áfram."

„Ég hef alltaf spurt sjálfan mig að því hvort ég hefði átt að tala við einhvern hjá BBC um þetta. Sem 19 eða 20 ára gamall drengur, hefði það verið mögulegt fyrir mig að tala við einhvern hjá BBC og fá þá til að hætta að tala um mig? Hefðu þeir haldið áfram hvort sem er? Ég veit það ekki."

Chadwick segir að þáttastjórnandinn Hancock hafi eitt sinn beðið um eiginhandaráritun, en aldrei beðist afsökunar.

„Eitt af því sem olli mér mestum vonbrigðum var það að ég dýrkaði Lineker þegar ég var yngri. Ég man eftir að hafa horft á England á HM og hann var ein af hetjunum. Að hann hafi svo sagt neikvæða hluti um mig og mitt útlit, það er mjög sorglegt fyrir mig. Ég var mjög feiminn einstaklingur og þetta hafði mikil áhrif á minn vöxt sem manneskja."

Grein The Athletic má í heild sinni lesa hérna.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner