Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
banner
   þri 17. janúar 2023 16:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sara fékk hótanir frá Lyon: Þá á hún enga framtíð hjá félaginu
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara lyftir Meistaradeildarbikarnum með Lyon.
Sara lyftir Meistaradeildarbikarnum með Lyon.
Mynd: Getty images
Í leik með Íslandi á EM.
Í leik með Íslandi á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikjahæsti leikmaður í sögu Lyon.
Leikjahæsti leikmaður í sögu Lyon.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Á ákveðnum tímapunkti þegar ég var ólétt þá kom það upp að ég myndi breyta til. Það er eitthvað sem ég mun ræða seinna, ástæðuna. Þetta var ekki alveg það sem hentaði mér og minni fjölskyldu," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrrum landsliðsfyrirliði, í hlaðvarpi á Fótbolta.net fyrir EM síðasta sumar.

Stuttu áður en það hlaðvarp var tekið upp þá hafði hún yfirgefið herbúðir franska stórliðsins Lyon og samið við Juventus á Ítalíu.

Sjá einnig:
Arsenal og Chelsea höfðu samband en fjölskyldan er í fyrsta sæti

Núna hefur Sara opnað sig um það sem gerðist á meðan hún var ólétt sem leikmaður Lyon. Það gerir hún í grein sem hún skrifar fyrir Players Tribune.

„Ég veit að valdamikið fólk í fótboltanum verður ósátt við þessa sögu... en ég verð að segja sannleikann," skrifar Sara.

Lyon er með mjög sterka ímynd í kvennaboltanum. Það er sigursælasta fótboltafélag í heimi og hefur verið rætt og skrifað um að umgjörðin í kringum liðið sé frábær.

„Þegar ég varð atvinnukona þá sagði ég bókstaflega við umboðsmann minn: 'Lyon og Wolfsburg, ég vil þessi lið."

„Ég var í fjögur frábær ár hjá Wolfsburg. Svo fór ég til Lyon sumarið 2020. Þar upplifði ég drauminn. Ég gleymi aldrei þeirri tilfinningu að vinna Meistaradeildina. Að skora í úrslitaleiknum og vinna titilinn með Lyon er eitt af því sem ég er hvað stoltust af á mínum ferli."

„En svo varð ég ólétt."

Sara segist hafa verið ánægð þegar hún frétti það að hún væri ólétt, en svo fór hún að hugsa um það hvernig félagið myndi bregðast við. Hún hélt þessu fyrst leyndu frá félaginu en sagði lækni liðsins og sjúkraþjálfurum. Þau hjálpuðu henni að æfa venjulega. Hún reyndi að spila áfram en svo kom sá tímapunktur að hún var ekki 100 prósent lengur.

„Það var mikilvægur leikur á móti PSG. Jean-Luc, þjálfarinn á þeim tíma, kom upp að mér þegar ég var að hita upp og spurði hvort það væri allt í lagi með mig. Daginn áður hafði ég kastað upp þrisvar sinnum á æfingu. Mér leið hræðilega og þegar þjálfarinn bað mig um að koma inn á í hálfleik þá varð ég að segja nei. Það er ekki mér líkt en þetta var of mikið fyrir mig."

Í kjölfarið - um viku síðar - sagði hún öllum hjá félaginu að hún væri ólétt. Sara segir að spurningarnar hafi verið margar þar sem hún hafi verið fyrsti leikmaður í sögu Lyon til að vera ólétt með þá ætlun að koma til baka.

Sara ákvað að það væri best fyrir sig að fara heim til Íslands og ganga í gegnum meðgönguna þar. Hún fékk leyfi fyrir því, en hún ætlaði sér að snúa aftur til félagsins og spila. Sara taldi að það væri fagnaðarefni fyrir sig og félagið ef hún yrði fyrsti leikmaðurinn í sögu Lyon til að koma til baka eftir barneign.

Fékk ekki launin sín
Hún segist hafa fundið fyrir slökun er hún lenti á Íslandi, en svo þegar fyrsti launaseðillinn kom frá Lyon eftir að hún tilkynnti félaginu að hún væri ólétt, þá var hún hissa. Hún fékk ekki borgað og mánuðinn eftir ekki heldur.

Sara og umboðsmaður hennar höfðu samband við félagið sem sagðist vera að fara eftir frönskum lögum. Félagið fór hins vegar ekki eftir reglum FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, um barneignaleyfi. FIFA setti fyrir nokkru síðan reglur um barneignaleyfi til að verja leikmenn.

„Þetta er ekki staða sem þú býst við að vera í, sérstaklega ekki hjá félagi eins og þessu," skrifar Sara en hún fékk svo hótanir frá Lyon.

„Ef Sara fer til FIFA með þetta þá á hún enga framtíð hjá Lyon," voru svörin sem umboðsmaður Söru fékk frá stjórnarmönnum Lyon.

Þetta átti að vera ánægjulegasti tíminn í lífi Söru en út af afstöðu Lyon þá var svo ekki. Félagið brást henni. Hún æfði eins og brjálæðingur á meðan hún var ólétt til þess að eiga sem bestan möguleika á því að koma til baka í toppstandi. Hún heyrði ekkert frá félaginu, þau könnuðu aldrei stöðuna á henni.

Eftir að hún eignaðist son sinn, Ragnar, þá fór hún aftur til Lyon. Hún ætlaði að gefa 110 prósent í verkefnið en fann að það var komið öðruvísi fram við hana hjá félaginu. „Þau létu mér alltaf líða eins og það væri neikvætt að ég ætti barn," skrifar Sara.

Sara fór í gegnum FIFA og leikmannasamtökin til að fá laun sín greidd og telur hún að það haft áhrif á samband sitt við félagið. Lyon sagði við Söru að þetta væri ekkert persónulegt, bara viðskipti.

FIFA skipaði Lyon að greiða Söru launin, en hún segist vera á betri stað núna hjá Juventus.

„Ég vil vera viss um að engin þurfi að ganga í gegnum það sem ég gekk í gegnum. Ég vil að Lyon viti að þetta er ekki allt í lagi. Þetta snýst um rétt minn sem verkamanns, sem konu og sem manneskju. Við erum komin langt í kvennaboltanum en það er enn mikil vinna eftir. Við eigum betra skilið," skrifar Sara sem er ein mesta goðsögn í sögu íslenska fótboltans. Hún hætti nýverið að spila með landsliðinu en hún er leikjahæsti leikmaðurinn í sögu liðsins.

Hægt er að lesa alla greinina með því að smella hérna.Athugasemdir
banner
banner
banner