Markvörðurinn Jonathan Rasheed gekk til liðs við KA á dögunum frá Värnamo í Svíþjóð eftir að samningurinn hans við sænska félagið rann út.
Hann varð fyrir því óláni að slíta hásin á æfingu KA og mun því ekki ná að spila með liðinu í sumar. Þetta eru svakaleg vonbrigði fyrir liðið en hann kom til að veita Steinþóri Má Auðunssyni samkeppni um stöðuna.
Rasheed er 33 ára gamall. Hann er fæddur í Gautaborg, og er með norskan ríkisborgararétt. Faðir hans er nígerískur og móðir hans er norsk.
Á síðasta tímabili lék hann 14 leiki fyrir Värnamo í sænsku úrvalsdeildinni. Liðið hélt sér í úrvalsdeildinni eftir fallumspil. Tímabilið á undan spilaði hann 22 leiki í úrvalsdeildinni þegar Värnamo náði 5. sæti.
Áður en hann fór til Värnamo var hann hjá Häcken og lék þar fyrst með Óskari Sverrissyni og síðar Valgeiri Lunddal Friðrikssyni. Hann var varamarkmaður liðsins þegar Häcken varð sænskur meistari 2022. Þess má til gamans geta að snemma á ferlinum lék Rasheed með FH goðsögninni Allan Borgvardt í sænska liðinu Sylvia.
Komnir
Jonathan Rasheed frá Svíþjóð
Guðjón Ernir Hrafnkelsson frá ÍBV
Ingimar Torbjörnsson Stöle frá FH (var á láni)
Bjarki Fannar Helgason frá Hetti/Hugin
Árni Veigar Árnason frá Hetti/Hugin (var á láni)
Hákon Atli Aðalsteinsson frá Dalvík/Reyni (var á láni)
Farnir
Daníel Hafsteinsson í Víking
Sveinn Margeir Hauksson í Víking
Elfar Árni Aðalsteinsson í Völsung
Harley Willard á Selfoss
Kristijan Jajalo til Austurríkis
Darko Bulatovic til Svartfjallalands
Athugasemdir