Man Utd reynir við Gyökeres í þessum glugga - Trent færist nær Real Madrid - Arsenal leiðir kapphlaupið um Omar Marmoush
banner
   þri 17. september 2024 14:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjálfari Völsungs um Jakob Gunnar: Bara rugl, algjört rugl
Jakob Gunnar Sigurðsson.
Jakob Gunnar Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Er búinn að semja við KR fyrir næsta tímabil.
Er búinn að semja við KR fyrir næsta tímabil.
Mynd: KR
Skoraði 25 mörk í sumar.
Skoraði 25 mörk í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Stjarna tímabilsins hjá Völsungi var hinn 17 ára gamli Jakob Gunnar Sigurðsson. Hann kom, sá og sigraði. Hann gerði heil 25 mörk og endaði langmarkahæstur í 2. deildinni.

Völsungur tryggði sér um síðustu helgi sæti í Lengjudeildinni með frábærum sigri gegn KFA. Jakob Gunnar skoraði þar fjögur mörk.

„Bara rugl, algjört rugl," segir Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari Völsungs, við Fótbolta.net um frammistöðu sóknarmannsins efnilega.

„Ég átti fund með Jakobi í vetur þar sem við vorum að gera upp síðasta tímabil og horfa í framhaldið. Jakob tekur þátt í 27 keppnisleikjum með okkur í fyrra og skorar eitt mark. Sem er alveg galið núna. Hann var ekki að spila sem fremsti maður í öllum leikjum, var líka út á væng mikið. Ég sagði það þá að það sé mikilvægt að efnilegir leikmenn komist snemma inn á völlinn í meistaraflokksbolta. Mér fannst mikilvægt að hann væri að spila og ég held að hann hafi uppskorið mikið eftir síðasta tímabil að hafa fengið að spila svona mikið."

„Ég veit ekki hvað ég á að segja um Jakob Gunnar. Að skora 25 mörk 17 ára í 2. deild er magnað afrek. Hann skoraði í tólf leikjum í deildinni í sumar. Ég held að það sé ágæt tölfræði; ef hann skorar, þá eru meiri líkur en minni að hann skori fleira en eitt mark. Hann á allt það hrós skilið sem hann hefur fengið."

Hvernig fer leikmaður úr því að skora eitt mark í að skora 25 á einu ári?

„Ef ég ætti töfrasvarið, þá væri síminn örugglega búinn að hringja á fullu. Við erum búin að hlæja aðeins af því núna... aðstoðarþjálfarinn minn segir við mig eftir tvær umferðir - þá erum við ekki búnir að skora mark - að Jakob væri kannski ekki sóknarmaður. Hann hefði spilað marga góða leiki á kantinum og væri kannski meiri kantmaður. Við hlógum mikið að því seinna því þessi ummæli eldast gríðarlega illa. Hann var búinn að skora ellefu mörk í næstu fimm leikjum. Það var eitthvað sem ég hafði aðeins áhyggjur af fyrir tímabil að við vorum ekki með rosalega mörg mörk á bakinu, ef við tökum Steinþór Freyr út fyrir sviga. Að Jakob Gunnar hafi skorað 25 mörk létti aðeins á okkur," segir Alli og hlær.

Hvernig verður þetta skarð fyllt?
Jakob Gunnar er búinn að semja við KR fyrir næsta tímabil. Eins og staðan er núna, þá er hann að fara að spila í Bestu deildinni. Hvernig verður það skarð eiginlega fyllt hjá Völsungi á næstu leiktíð?

„Mér finnst eiginlega ekki tímapunkturinn að ræða það. Við eigum að njóta núna," segir þjálfarinn.

„Við höfum eiginlega ekki náð að fagna þessu enn. Ég ætla ekki að hafa stórar áhyggjur af því enn. Kemur hann aftur til okkar og tekur milliskref áður en hann fer og meikar það í enn stærri deildum? Það verður að koma í ljós."
Athugasemdir
banner
banner
banner