Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 17. september 2024 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Pikkfastir uppi á fjalli í sigurvímu - „Ótrúleg gleði í flestum þrátt fyrir það"
Völsungur upp í Lengjudeildina
Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari Völsungs.
Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari Völsungs.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir leik hjá Völsungi í sumar.
Fyrir leik hjá Völsungi í sumar.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Hinn 17 ára gamli Jakob Gunnar skoraði 25 mörk í 2. deildinni í sumar.
Hinn 17 ára gamli Jakob Gunnar skoraði 25 mörk í 2. deildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Völsungur endaði tímabilið á stórsigri gegn KFA.
Völsungur endaði tímabilið á stórsigri gegn KFA.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Hallgrímur Mar Steingrímsson er uppalinn í Völsungi. Stuðningsmenn félagsins hafa gert sér vonir um endurkomu hans á samfélagsmiðlum.
Hallgrímur Mar Steingrímsson er uppalinn í Völsungi. Stuðningsmenn félagsins hafa gert sér vonir um endurkomu hans á samfélagsmiðlum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elfar Árni er einnig uppalinn í Völsungi. Kemur hann heim?
Elfar Árni er einnig uppalinn í Völsungi. Kemur hann heim?
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
'Það hafa komið svefnlausar nætur þar sem maður er að vinna upp eða bara með hausinn á milljón. Þetta hefur samt gengið ótrúlega vel'
'Það hafa komið svefnlausar nætur þar sem maður er að vinna upp eða bara með hausinn á milljón. Þetta hefur samt gengið ótrúlega vel'
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Kvennalið Völsungs er einnig í baráttu um að komast upp í Lengjudeildina.
Kvennalið Völsungs er einnig í baráttu um að komast upp í Lengjudeildina.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
'Maður gleymir sér stundum í augnablikinu og allt í einu er þetta bara búið. Þess vegna hef ég verið að segja að þetta sé gaman. Nú má vera gaman'
'Maður gleymir sér stundum í augnablikinu og allt í einu er þetta bara búið. Þess vegna hef ég verið að segja að þetta sé gaman. Nú má vera gaman'
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
„Maður átti aldrei von á því að geta verið rólegur yfir þessu öllu saman á þessum degi," segir Aðalsteinn Jóhann Friðriksson, þjálfari Völsungs, í samtali við Fótbolta.net

Alli Jói, eins og hann er oft kallaður, stýrði liði Völsungs upp úr 2. deild karla í sumar. Það kom mörgum á óvart þar sem Húsvíkingum var spáð í fallbaráttu fyrir tímabil. Annað kom hins vegar á daginn.

Völsungar voru með örlögin í höndum sínum fyrir lokaumferðina um liðna helgi en verkefnið var ekki auðvelt. Þeir þurftu að fara á útivöll gegn KFA og taka þar sigur til að tryggja sætið. Það var stress í þjálfaranum um morguninn, en svo hófst leikurinn.

„Við hittumst klukkan átta í morgunmat og tókum fund. Við rennum svo austur. Það sem maður var minnst búinn að búa sig undir var að það var snjór á veginum og ekkert spes að fara en eftir að við komum þangað var þetta bara geggjað. Maður fann það mjög snemma að strákarnir voru ógeðslega vel gíraðir," segir Alli Jói.

„Þegar leikurinn fer af stað voru komnir um 150 stuðningsmenn frá Húsavík þrátt fyrir að færðin var ekki góð. Þeir byrjuðu að hrópa og syngja en það hjálpaði strákunum að byrja leikinn eins og þeir gerðu. Það var eiginlega ekki aftur snúið þá. Það var allt 'on'."

Eftir tólf mínútur var staðan orðin 0-3 fyrir Völsung.

„Ég vaknaði mjög snemma og ég svaf ekki mikið, ég viðurkenni það. Ég var kominn upp í vallarhús klukkan sjö um morguninn. Ég man það þegar ég var búinn að kveðja strákana í klefanum að ég gaf mér augnablik. Ég var stressaður. Ég hafði verið það undanfarnar vikur en ég varð að passa mig að sýna strákunum það ekki. Ef þú ert á þessum stað, þá koma tilfinningar sem þú hefur ekki fundið lengi. Þú ert í fótbolta út af þessu. Ef þú ætlar ekki að reyna að njóta þess á meðan þú ert í svona baráttu, þá ættirðu að vera að gera eitthvað annað."

„Auðvitað byrjaði þetta vel og framar öllum björtustu vonum. Þegar þeir minnka muninn í 3-1, þá var það smá högg í magann og ef þeir hefðu skorað 3-2, þá hefði getað komið skjálfti. En strákarnir voru svo hrikalega vel stilltir. Við náðum fjórða og fimmta markinu fyrir hálfleik og það róaði mann. Einhvern veginn er maður það bilaður að mér leið ekki að þetta væri komið eftir 12 mínútur, en örugglega var það langt komið. Ég neita því ekki."

Töluðum um það snemma
Þegar spáin birtist fyrir tímabil, þá voru Völsungar í níunda sæti. Þeir byrjuðu svo ekki vel og töpuðu fyrstu tveimur leikjunum.

„Okkur leið alltaf eins og við værum með betra lið en fólk gerði ráð fyrir og var að spá til um. Við töluðum um það snemma að það væri góð tilfinning að vera 'underdogs'. Okkur langaði að lifa eins lengi með því og hægt væri. Við byrjuðum illa og töpuðum 3-0 á móti Víkingi Ólafsvík þar sem við vorum alls ekki góðir. Við spilum svo heima á móti Selfossi þar sem við vorum mjög góðir en náðum bara ekki að skora. Okkur leið alltaf eins og við værum betri en fólk var að spá fyrir um."

„Við unnum þrjá leiki í röð eftir að hafa tapað fyrstu tveimur. Þá var tilfinningin sú að við værum með þetta. Í fyrri umferðinni erum við með 16 stig en okkur leið eins og við værum miklu betri en það, út af því hvernig við vorum að spila. Við töpum 5-0 í 11. umferð á móti Þrótti Vogum, en við tókum fund eftir það og fórum vel yfir málin. Við komum inn í seinni umferðinni og unnum Víking Ólafsvík og unnum svo dramatískan sigur gegn Selfossi 4-3 þar sem við vorum undir á 91. mínútu. Í seinni umferðinni erum við taplausir og vinnum átta leiki. Það kemur þessu yfir línuna."

Baráttan um annað sætið var gríðarlega hörð alveg til enda en þegar lítið var eftir voru sex lið í baráttunni.

„Á tímabili var baráttan ótrúleg og í 15. umferð voru þrjú stig frá liðinu í öðru sæti niður í sjöunda sæti. Við unnum Hauka og Hött/Hugin og skildum þau aðeins eftir á þeim tímapunkti. Við áttum ekki séns á móti Víkingi Ólafsvík í útileiknum og eins með Þrótt á útivelli. Í næst síðustu umferð á móti Þrótti var útlitið ekki bjart þar sem við vorum 2-0 undir eftir 80 mínútur en samheldni, karakter og allt það... að hafa skorað með síðustu snertingunni á móti Þrótti og náð þannig að halda okkur í öðru sæti, ég held að það hafi hjálpað okkur gríðarlega fyrir lokaumferðina. Ég held að það sé ekki spurning."

„Mér fannst bæði Þróttur og Víkingur vera með frábær lið. Mér finnst það ógeðslega vel gert hjá okkur að hafa endað fyrir ofan bæði þessi lið."

Stemningin á Húsavík
Á leiðinni að stóra markmiðinu, þá myndaðist mikil stemning í liðinu og í kringum það.

„Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt á stað eins og hér, og með lið eins og Völsung, að ef við ætlum að berjast um þetta þá séum við alltaf að fara að gera það á ástríðunni," segir Alli.

„Samheldni, ástríða og stemning er eitthvað sem er gríðarlega mikilvægt. Það höfum við gert vel. Þeir sem við fengum fyrir tímabil voru mjög snemma komnir inn í þetta. Það skipti þá miklu máli líka hvernig fór. Þetta er ógeðslega samstillt og samþjappað lið. Menn fóru að trúa helvíti snemma, þá að við höfum verið langt á eftir. Eftir 17 umferðir erum við komnir í annað sætið í fyrsta skipti og það var sterkt að hafa aldrei sleppt tökunum á því."

Hvernig verður þetta skarð fyllt?
Stjarna tímabilsins hjá Völsungi var hinn 17 ára gamli Jakob Gunnar Sigurðsson. Hann kom, sá og sigraði. Hann gerði heil 25 mörk og endaði langmarkahæstur í deildinni. Jakob Gunnar er búinn að semja við KR fyrir næsta tímabil. Eins og staðan er núna, þá er hann að fara að spila í Bestu deildinni. Hvernig verður það skarð eiginlega fyllt hjá Völsungi á næstu leiktíð?

„Mér finnst eiginlega ekki tímapunkturinn að ræða það. Við eigum að njóta núna," segir þjálfarinn.

„Við höfum eiginlega ekki náð að fagna þessu enn. Ég ætla ekki að hafa stórar áhyggjur af því enn. Kemst hann að hjá KR eða kemur hann aftur til okkar og tekur milliskref áður en hann fer og meikar það í enn stærri deildum? Það verður að koma í ljós."

Ertu þá ekki farinn að heyra í Húsvíkingum í öðrum liðum? Fá þá heim.

„Ég er ekki farinn að gera það. Maður fékk margar kveðjur og frá þessum mönnum líka. Auðvitað segja menn eitthvað í gríni og svona, en alvöru samtalið hefur ekki átt sér stað. Við skulum anda með nefinu og sjá hvað gerist. Það er mikilvægt að vera til og fagna þessu aðeins," segir Alli en það eru nokkrir Húsvíkingar í efstu deild. Má þar nefna Hallgrím Mar Steingrímsson, leikmann KA, til dæmis en stuðningsmenn Völsungs hafa verið að gera sér vonir um að fá hann og aðra leikmenn heim.

Sátu fastir upp á fjalli
Leikmenn Völsungs hafa ekki náð að fagna því almennilega að þeir séu komnir upp um deild. Þeir voru nefnilega lengi á leiðinni heim eftir leikinn gegn KFA.

„Það festust fimm bílar á heimleiðinni. Við sátum fastir upp á fjalli og skiluðum okkur seint heim eftir sigurinn. Partýið var ekki alveg jafnmikið og menn höfðu vonast," segir Alli Jói.

„Það væri ljótt af mér að henda einhverjum undir rútunni. Vegagerðin var búin að loka einhverju og það var einhver stórsniðugur sem hélt að það væri hægt að fara einhverja aðra leið. Við enduðum upp á fjalli þar sem við sátum fastir. Það var súrrealískt að vera búnir að tryggja okkur upp um deild og sitja pikkfastir í bílunum. Auðvitað var gleði og allt það, en við verðum að fagna þessu betur um næstu helgi."

„Við vorum að skila okkur heim um tvö. Við vorum lengur að keyra heim frá Egilsstöðum - sem á að taka tvo og hálfan tíma - heldur en við vorum úr Þorlákshöfn um daginn. Þetta var alveg galið. Það átti að vera matur í vallarhúsinu um hálf níu en við vorum að skila okkur í hann ískaldan um klukkan tvö um nóttina. Það var ótrúleg gleði í flestum þrátt fyrir það."

Brjáluð vinna og algjör geðveiki
Alli Jói hefur stýrt bæði karla- og kvennaliði Völsungs í sumar. Kvennaliðið er líka í góðum möguleika á að komast upp í Lengjudeildina en það eru tveir leikir eftir þar.

„Það hefur verið framar vonum líka. Það hefur gengið ótrúlega vel að samtvinna þessar tvær vinnur. Þetta er náttúrulega brjáluð vinna og algjör geðveiki að ætla sér út í þetta. Það hafa komið svefnlausar nætur þar sem maður er að vinna upp eða bara með hausinn á milljón. Þetta hefur samt gengið ótrúlega vel," segir Völsungurinn mikli.

„Svo það sé viðurkennt þá tókst okkur ekki að styrkja liðið eins og við ætluðum að gera. Það mistókst og hópurinn er töluvert þynnri en við áttum von á. En við náðum að byrja rosalega sterkt og halda dampi. Við þrískiptum tímabilinu og það var mikilvægt að byrja vel. Fyrir langflesta parta hefur þetta gengið gríðarlega vel. Við settum okkur það markmið að vera í topp fimm og taka þátt í úrslitakeppninni. Við höfum sótt töluvert fleiri stig en flestir áttu von á. Fyrst við erum í þessari stöðu, þá væri asnalegt að segja annað en það að við ætlum okkur að klára þetta."

Þykir ógeðslega vænt um það
Alli Jói er gríðarlega mikill Völsungur en hann lék allan sinn leikmannaferil hjá félaginu og hefur jafnframt stigið sín fyrstu skref í þjálfun þar. Sumarið hefur verið frábært svo ekki sé meira sagt.

„Mér þykir ógeðslega vænt um það sem hefur verið í gangi hér í sumar, þetta allt saman. Ég hef verið að reyna að halda leikmönnum á jörðinni en á sama tíma hefur maður kannski verið að berjast við það sjálfur. Það mikilvægasta í þessu öllu er að þegar leikirnir skipta máli í lok tímabilsins, þá verðurðu að njóta þess að fara á æfingu, taka þátt í leikjunum og vera partur af hópnum. Maður gleymir sér stundum í augnablikinu og allt í einu er þetta bara búið. Þess vegna hef ég verið að segja við liðið að þetta sé gaman. Nú má vera gaman. Stelpurnar eiga tvo leiki eftir og við verðum bara að halda áfram að njóta."

„Það er saga hérna og það vita það allir. Það er ótrúlega flott að vera í Völsungi og menn vita að ef þeir standa sig vel, þá fá þeir tækifæri. Þannig búum við til góða unga leikmenn. Fótboltahefðin er stór hérna og í grunninn er sagan svo rík hér að það er mikilvægt að við höldum áfram að skrifa hana," sagði Alli Jói að lokum en Völsungur var síðast með karlaliðið sitt í næst efstu deild árið 2013. Til þess að bæta árangurinn frá því tímabili þá þurfa þeir einungis að ná í þrjú stig. En fyrst er það að njóta augnabliksins.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner