Fótboltasérfræðingurinn Gary Neville, sem er goðsögn hjá Manchester United, óttast að Ruben Amorim verði rekinn úr þjálfarastól Rauðu djöflanna á næstu vikum ef hann snýr slöku gengi ekki við.
Man Utd steinlá 3-0 gegn Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær og er aðeins með 4 stig eftir 4 fyrstu umferðirnar á nýju tímabili. Liðið tekur á móti Chelsea í næstu umferð.
„Ég held að stjórnendur muni setja pressu á þjálfarann útaf þrjósku hans með að skipta aldrei um leikkerfi. Þeir steinlágu gegn City þrátt fyrir að hafa átt fína kafla í byrjun beggja hálfleika. Fyrsta korterið var gott og fyrstu fimm mínúturnar í síðari hálfleik. City var betra liðið þegar það skipti máli," sagði Neville meðal annars.
„Það hefur gerst að ég verð reiður og pirraður þegar ég sé Man Utd tapa svona leikjum en í þetta skiptið finn ég ekki fyrir neinu, sem er ennþá verra. Þetta var engin frammistaða. United tapaði bara verðskuldað. Ég held að stjórnin fari að spyrja sig stórra spurninga ef liðið tapar líka gegn Chelsea um næstu helgi."
Man Utd hefur ekki byrjað úrvalsdeildartímabil jafn illa í 33 ár, auk þess að vera slegið úr leik í enska deildabikarnum af D-deildarliði Grimsby Town.
„Man Utd er í 14. sæti eftir fjóra leiki. Ef liðið er ennþá á þessum stað þegar við förum inn í október þá er þjálfarinn í vandræðum. Þeir þurfa að snúa þessu við sem fyrst og byrja að vinna leiki.
„Ef þeir tapa í næstu viku þá detta þeir niður í 15. eða 16. sæti. Stjórnin vill ekki fara inn í október í neðri hluta stöðutöflunnar eftir að hafa eytt 200 milljónum í sumar og gefið þjálfaranum heilt undirbúningstímabil með liðinu.
„Hann verður að snúa þessu slæma gengi við sem fyrst og koma hugmyndum sínum almennilega fyrir í hausinn á leikmönnunum.
„Liðið hefur lent í erfiðleikum gegn Burnley, Fulham og Grimsby á tímabilinu. Þeir eiga erfitt með að finna réttan takt og ég er smeykur um framtíðina. Ég óttast um starf þjálfarans. Að mínu mati þá er engin þörf fyrir að örvænta, en við höfum öll séð þessa bíómynd áður."
14.09.2025 20:33
Amorim: Samþykki hvaða ákvörðun sem verður tekin
Athugasemdir