Bayern vill 100 milljónir fyrir Olise - Chelsea reynir að fá Guehi og Maignan frítt - Konate ætlar til Real Madrid
   mán 15. september 2025 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Parker um vítið: Þurfum að verjast með hendur fyrir aftan bak
Mynd: Burnley
Mynd: EPA
Scott Parker þjálfari Burnley var sársvekktur eftir naumt tap gegn Englandsmeisturum Liverpool í gær.

Burnley varðist vel á heimavelli og hélt stöðunni markalausri allt þar til seint í uppbótartíma, þegar Liverpool fékk dæmda vítaspyrnu fyrir afar klaufalega hendi innan vítateigs.

„Við vörðumst eins og lífið okkar lægi á því og ég er ótrúlega stoltur af strákunum fyrir frammistöðuna. Þetta mark braut hjartað í okkur en svona er fótboltinn stundum," sagði Parker eftir tapið.

„Við vissum hvað við þurftum að gera til að halda þeim niðri og við gerðum það virkilega vel. Ef maður opnar sig þá er Liverpool eitt besta lið í heimi að nýta sér plássin sem skapast. Okkar markmið var að gefa þeim ekkert pláss og það heppnaðist vel hjá okkur. Við vorum að reyna að ná í einhver úrslit, við erum að reyna að lifa af og öll stig telja."

Nýliðar Burnley eru með þrjú stig eftir fjórar fyrstu umferðirnar á úrvalsdeildartímabilinu.

„Strákarnir gerðu nákvæmlega það sem ég bað þá um í dag. Þeir sýndu ótrúlega mikinn baráttuvilja og þetta er það sem ég vil sjá frá þeim. Ég á erfitt með að finna orðin til að lýsa því hversu stoltur ég er af strákunum."

En hvað fannst Parker um vítaspyrnudóminn, þar sem Hannibal Mejbri fékk bolta í hendi eftir fyrirgjöf frá Jeremie Frimpong?

„Ég kom hingað inn vonandi að ég þyrfti ekki að tala um þetta. Samkvæmt reglunum þá er þetta víst hendi. Það eru tæpir 5 metrar á milli þeirra og hann er ekki með handlegginn uppvið líkamann. Við þurfum að breyta hvernig við verjumst, menn verða að byrja að verjast með hendur fyrir aftan bak til að fá ekki brot dæmt á sig.

„Hann er að snúa sér við í loftinu og það er eðlilegt að handleggurinn fari svona út í þeirri hreyfingu. Sóknarmaðurinn þrumar boltanum í höndina á honum á örugglega 130km hraða. Eina sem Hannibal getur lært af þessu er að verjast með hendur fyrir aftan bak. Það er öðruvísi aðferð en við erum vanir, en þetta er eitthvað sem við þurfum að æfa okkur í."


Sjáðu atvikið

   14.09.2025 15:00
England: Meistararnir þurftu vítaspyrnu í uppbótartíma til að sækja stigin þrjú

Athugasemdir
banner