"Þetta var bara æðislegt. Það stefndi í 0-0 og við vorum búnir að fá þónokkur færi til að skora en það var ekki að detta. Það var geðveikt að ná að brjóta ísinn í lokin," sagði Viktor Jónsson, leikmaður ÍA, eftir 2-1 sigur gegn KR í kvöld en Viktor skoraði fyrra mark ÍA í leiknum.
Lestu um leikinn: ÍA 2 - 1 KR
Þrátt fyrir að hafa komist í 2-0 mjög seint í leiknum náði KR að minnka muninn og fékk svo hornspyrnu í restina. Viktor er sammála því að Skagamenn hafi gert þetta of spennandi í lokin.
"Já maður er aldrei rólegur. Ég var að öskra á menn að halda fókus því maður veit hvað getur gerst. Þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið. Það var sætt þegar hann flautaði í lokin."
Með marki sínu í dag hefur Viktor nú skorað 8 mörk í 10 leikjum. Hann hefur oft skorað mikið í Lengjudeildinni en aldrei náð að springa út í þeirri Bestu. Er hann loksins að sýna sitt rétta andlit?
"Já ekki spurning. Loksins get ég sýnt hvað ég get. Umræðan var mikil fyrir tímabilið en það mótiveraði mig bara og hefur hjálpað mér."
Liðið er nú í 4. sæti deildarinnar og Viktor segir að liðið þurfi að setja sér ný markmið. "Nú setjum við markið hærra. Fyrsta markmið var að halda sér í deildinni en nú hlýtur markmiðið að vera hærra."
Allt viðtalið við Viktor má sjá í spilaranum hér að ofan.