Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 18. júlí 2024 09:52
Elvar Geir Magnússon
Hver mun vinna Ballon d'Or 2024?
Mynd: Getty Images
Hver mun vinna Ballon d'Or gullboltann sem besti leikmaður heims 2024? Tilnefningar verða opinberaðar 4. september. Við skoðum hér hvaða sex leikmenn eru efstir á blaði hjá veðbönkum.

Þú getur látið þína skoðun í ljós með því að taka þátt í skoðanakönnun sem er á forsíðunni.
Mynd: EPA

Vinicius Jr (Real Madrid, Brasilía)
Spilaðir leikir: 49. Mörk skoruð: 26. Stoðsendingar: 11. Bikarar: La Liga, Meistaradeildin, Spænski Ofurbikarinn.

Þessi lykilmaður Real Madrid hefur verið orðaður við Gullboltann í nokkurn tíma en hann var markakóngur spænska stórliðsins á síðasta tímabili. Sigur með Brasilíu á Copa America hefði líklega gulltryggt honum Ballon d'Or en liðið féll út í vítakeppni gegn Úrúgvæ í 8-liða úrslitum.

Síðasti Brasilíumaður sem vann Ballon d'Or var Kaka 2007
Mynd: EPA

Rodri (Manchester City, Spánn)
Spilaðir leikir: 63. Mörk skoruð: 12. Stoðsendingar: 14. Bikarar: Enska úrvalsdeildin, Ofurbikar Evrópu, HM félagsliða, EM 2024.

Þessi öflugi spænski varnartengiliður tapaði bara einum leik á tímabilinu fyrir land og lið. Hann fór meiddur af velli í úrslitaleik EM en hafði þegar gert nóg til að tryggja sér titilinn besti leikmaður mótsins.

Enginn leikmaður Manchester City hefur unnið Ballon d'Or meðan hann var hjá félaginu
Mynd: Getty Images

Jude Bellingham (Real Madrid, England)
Spilaðir leikir: 54. Mörk skoruð: 27. Stoðsendingar: 16. Bikarar: La Liga, Meistaradeildin, Spænski Ofurbikarinn.

Þessi 21 árs enski landsliðsmiðjumaður átti frábært fyrsta tímabil með Real Madrid. Hann sýndi ekki sínar bestu hliðar á EM en skoraði stórkostlegt mark gegn Slóvakíu.

Hann yrði fyrsti Englendingurinn til að vinna Ballon d'Or síðan Michael Owen 2001
Mynd: Getty Images

Dani Carvajal (Real Madrid, Spánn)
Spilaðir leikir: 54. Mörk skoruð: 7. Stoðsendingar: 8. Bikarar: La Liga, Meistaradeildin, Spænski Ofurbikarinn, EM 2024.

Aðeins einn af tólf leikmönnum sem hefur spilað í og unnið bæði Meistaradeildina og EM landsliða á sama ári. Hann skoraði fyrsta mark Real Madrid í úrslitaleiknum gegn Borussia Dortmund í Meistaradeildinni. Þá skoraði hann fyrir Spán í sigri gegn Króatíu á EM.

Carvajal yrði fyrsti bakvörðurinn til að vinna Ballon d'Or
Mynd: EPA

Lamine Yamal (Barcelona, Spánn)
Spilaðir leikir: 64. Mörk skoruð: 10. Stoðsendingar: 14. Bikarar: EM 2024.

Yamal er nýorðinn sautján ára og átti algjörlega magnað tímabil hjá Barcelona miðað við þetta ungan dreng. Hann var síðan alveg ótrúlegur á EM, fjórar stoðsendingar og geggjað mark í sigri gegn Frakklandi. Yngsti leikmaður, markaskorari og sigurvegari á EM. Var valinn besti ungi leikmaður mótsins.

Brasilíska goðsögnin Ronaldo er yngsti leikmaður sem hefur unnið Ballon d'Or en hann var 21 árs þegar hann vann 1997
Mynd: Getty Images

Lionel Messi (Inter Miami, Argentína)
Spilaðir leikir: 39. Mörk skoruð: 28. Stoðsendingar: 17. Bikarar: Copa America.

Sá sigursælasti og núverandi handhafi. Hinn 37 ára gamli Messi hefur átta sinnum unnið Ballon d'Or, oftar en nokkur annar. Það yrði þó mjög óvænt ef hann vinnur í ár. Hann skoraði bara eitt mark á Copa America, fór meiddur af velli í úrslitaleiknum og náði ekki að sýna sínar bestu hliðar á mótinu.

Messi vann engan titil með Inter Miami á árinu
Ertu ánægð/ur með fyrirkomulagið í Bestu deildinni?
Athugasemdir
banner
banner
banner