„Það er leiðinlegt að tapa fótboltaleikjum, það er alltaf eins en ef maður tapar einhverntíman fótboltaleik þá er það þegar það skiptir ekki rassgat máli," sagði Hermann Hreiðarsson þjálfari Þróttar Vogum eftir tap liðsins í síðasta leik tímabilsins gegn KV í dag en liðið var þegar búið að tryggja sér sigur í deildinni og sæti í næst efstu deild.
Þróttarar komu inn í leikinn til að ná í þrjú stig ekki til að taka Völsung með sér upp í 1. deild.
„Þú mætir í hvern einasta leik til að vinna og við vorum fyrst og fremst með það í huga og fá 45 stig frekar en 42. Það er í höndum KV og Völsungs að koma sér upp en ekki okkar."
Hemmi var ánægður með stígandan í liðinu á tímabilinu.
„Við byrjuðum hálf hikstandi en svo kom kafli sem við náðum helvíti góðu skriði. Það er rosalegur karakter í þessum hóp, þeir gerðu vel í fyrra og fylgdu því eftir í vetur og momentið áfram inn í sumarið og verið helvíti öflugir."
Hemmi var gríðarlega ánægður eftir vonbrigðartímabil í fyrra.
„Eftir að hafa sett sér markmið snemma eftir síðasta tímabil, við fórum ekkert að væla eða skæla þegar mótið var flautað af, við þéttum raðirnar og ákváðum að þetta væri í okkar höndum og keyrðum þetta strax vel upp í vetur. Karakter á allt liðið, það var enginn að hengja haus, það var bara 'heyrðu, við vinnum bara deildina á næsta ári" og að standa við það er meiriháttar."
Athugasemdir