Úrúgvæski framherjinn Darwin Nunez steig upp á mikilvægum tímapunkti fyrir Liverpool er hann skoraði tvö mörk í uppbótartíma í 2-0 sigrinum á Brentford í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Nunez, sem er 25 ára gamall, er ekki allra. Hann er iðulega gagnrýndur fyrir markaleysi og slaka færanýtingu, þó hann leggi sig allan fram í hvern einasta leik.
Framherjar eru jú dæmdir af mörkum og það hefur vantað hjá honum að skila boltanum reglulega í netið.
Síðustu daga hefur verið talað um að Liverpool gæti verið tilbúið að losa sig við hann og er þá helst talað um áhuga frá Sádi-Arabíu, en Nunez er ekki á förum og mun halda áfram að berjast fyrir sæti sínu.
„Maður verður að vera andlega sterkur og aldrei gefast upp. Það koma augnablik sem eru mjög erfið fyrir okkur leikmennina og ég er að ganga í gegnum eitt slíkt,“ sagði Nunez.
„Ég kasta aldrei hvíta handklæðinu inn. Ég held alltaf áfram að leggja mig fram. Ef ég þarf að vera eftir á æfingu og vinna í einhverjum þáttum þá geri ég það til að bæta mig.“
„Ég set einnig vinnu í að hjálpa liðinu að verjast og finnst ég alltaf hafa gert það vel, en ég hef ekki verið að skora mörk og það er það sem fólk horfir í. Framherjinn verður að skora mörk.“ sagði Nunez.
Nunez var að skora fyrstu deildarmörk sín síðan í nóvember og því mikill léttir fyrir Úrúgvæann. Hann er nú kominn með 4 mörk í deildinni.
„Sannleikurinn er sá að ég er að ganga í gegnum erfiðan kafla, en eins og ég hef áður sagt þá er ég einbeittur á verkefnið og að gefa allt fyrir Liverpool. Það er mikilvægt að hengja ekki haus og halda áfram að bæta mig. Þetta hugarfar heldur mér sterkum og auðvitað stuðningur fjölskyldunnar og stuðningsmanna. Þau eru ótrúleg.“
„Núna ætla ég að halda áfram að leggja mig fram, en þessi tvö mörk munu klárlega hjálpa til við að byggja sjálfstraustið og svo er ég auðvitað ánægður með sigurinn,“ sagði Nunez í lokin.
Athugasemdir