
„Það verður hörkuleikur og annað verðugt verkefni. Við erum með gott sjálfstraust í hópnum, trúin er til staðar og við förum norður til að vinna," sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Grindavíkur, eftir að ljóst varð að Grindavík mætir KA á Akureyri í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins.
„Við höfum verið sterkir, hvort sem það er heima eða úti, sterkir varnarlega, skorum mörk líka. Það verður erfitt að fara á Akureyri og sækja sigurinn, en við munum ekki gera það ef við höfum ekki trú á því. Við höfum trú á því og leikurinn í gær sýndi að við getum unnið hvaða lið á Íslandi sem er á góðum degi. Við erum fullir tilhlökkunar en áttum okkur á því að við erum að fara mæta góðu liði KA."
„Ég á bæði jákvæðar og neikvæðar þaðan. Það þýðir ekkert að spá í því hvað hefur gerst fyrir nokkrum eða ekki, hvort sem þær eru góðar eða ekki. Það er bara núið sem gildir og við erum í núinu, ætlum okkur að standa okkur í sumar og sigurinn í gær gefur okkur ekkert nema það að við höfum kannski enn meiri trú á liðinu. Það gefur okkur ekkert í þessum leik."
Örugglega sérstakt fyrir hann
Aron Dagur Birnuson, markvörður Grindavíkur, hóf meistaraflokksferil sinn hjá KA.
„Hann er búinn að standa sig frábærlega, verið mikilvægur hlekkur í þessu liði. Þetta er örugglega sérstakt fyrir hann að fara norður, en þetta er bara fótboltaleikur og við þurfum að nálgast hann að auðmýkt og vitum að KA-menn eru sterkir og með góða leikmenn í öllum stöðum. Við þurfum að gíra okkur í leikinn eins og við gerðum í gær á móti Val."
Fáir sem geta gert þetta
Helgi, sem var mikill markaskorari á sínum ferli, talaði um að skora mörk snemma í viðtalinu. Hefur hann sjálfur séð, eða skorað, jafnflott mark og Óskar Örn skoraði gegn Val í gær?
„Ég hef ekki skorað svona mark, ég skoraði bara ljót mörk í gegnum ferilinn," sagði Helgi og brosti. „Ég er viss um að öll mín mörk myndu ekki ná þessum 60 metrum. Þetta mark í gær var sérstakt, kórónaði frábæran leik. Frábært mark hjá Óskari, fáir sem geta gert þetta. Hann er með þessi gæði og þess vegna fengum við hann. Hann er bara að njóta sín hérna og það er bara góð stemning í liðinu. Þegar það er góð stemning í liðinu og bullandi stemning, þá gerast svona hlutir stundum."
Þurfum að koma okkur strax niður á jörðina
Að vinna Val, gefur það Grindavík mikið fyrir komandi baráttu í Lengjudeildinni?
„Það getur gert það, en við þurfum auðvitað að átta okkur á því að það er allt önnur keppni. Við erum að fara mæta Njarðvík á sunnudaginn og þurfum að koma okkur strax niður á jörðina og fara einbeita okkur að þeim leik. Það gefur okkur trúna á hvað við getum ef við erum fókuseraðir, en það er líka alltaf stutt í drulluna ef menn halda að þeir séu betri en þeir eru. Það er mitt verkefni og þjálfarateymisins að koma mönnum í skilning um það. Maður sá það í leiknum á móti FH að Njarðvík er með hörkulið og voru síst lakari aðilinn," sagði Helgi.
Þvílíkt mark! Óskar Örn Hauksson skoraði frá miðju í sigri Grindavíkur gegn Val???? @umfg pic.twitter.com/yYAcClOaXl
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) May 18, 2023
Athugasemdir