Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 19. október 2023 12:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
KR ætlar að ráða þjálfara eftir helgi - Nýtt nafn í umræðuna
Gregg Ryder er orðaður við KR.
Gregg Ryder er orðaður við KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR.
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýtt nafn hefur bæst í umræðuna um þjálfarastarfið hjá KR en Gregg Ryder, fyrrum þjálfari Þórs og Þróttar, var orðaður við starfið í hlaðvarpsþættinum Þungavigtin í gær.

KR-ingar eru í þjálfaraleit eftir að ákveðið var að endursemja ekki við Rúnar Kristinsson.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net voru Halldór Árnason og Jökull Elísabetarson næstir á óskalistanum en þeir eru ekki fáanlegir. Halldór tók við Breiðabliki af Óskari og Jökull gerði á dögunum nýjan samning við Stjörnuna.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson hefur fundað með KR en þá eru Brynjar Björn Gunnarsson og Ólafur Jóhannesson einnig á blaði hjá félaginu.

Núna er Gregg Ryder einnig orðaður við starfið. Hann starfaði áður sem aðstoðarþjálfari ÍBV og sem aðalþjálfari Þróttar og Þórs á Akureyri. Hann hefur undanfarin ár starfað sem aðstoðarþjálfari HB Köge í Danmörku.

Fótbolti.net hafði samband við Pál Kristjánsson, formann knattspyrnudeildar KR, í dag og spurði hann út í sögurnar um Ryder. Hann sagði þá:

„Ég ætla ekki að staðfesta nein nöfn eða mögulega kandídata en við erum í viðræðum við aðila og við reiknum með því að það verði komin niðurstaða fljótlega upp úr helgi."

„Við erum með lista og erum búnir að ræða við talsvert marga. Við erum að þrengja hópinn og reiknum með að loka þessu eftir helgi," sagði Páll.

Hefur þjálfaraleitin gengið vel?

„Já, menn eru áhugasamir og við komum ekki að lokuðum dyrum eða neinu slíku. Markaðurinn er í sjálfu sér ekki risastór en þetta hefur gengið vel og við höfum talað við marga góða menn. Við höfum þrengt hópinn smátt og smátt."

Nálgast það frekar öðruvísi
Páll segist ekki geta gefið upp hversu margir þjálfarar eru eftir í baráttunni um starfið. Óskar Hrafn Þorvaldsson var efstur á óskalistanum hjá KR en hann hefur ráðið sig til Haugesund í Noregi. Var svekkjandi að missa af honum?

„Ég nálgast það frekar öðruvísi. Við vissum að hugur Óskars stefndi út. Hann er góður vinur okkar og KR-ingur. Maður frekar samgleðst honum. Auðvitað hefði hann komið sterklega til greina sem þjálfari KR ef hann gefið færi á því. Það er ekkert svekkelsi, maður frekar samgleðst," sagði Páll að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner