Roberto De Zerbi, þjálfari Marseille í Frakklandi, hefur mikla trú á enska framherjanum Mason Greenwood og hrósaði honum sérstaklega eftir að hann skoraði fernu í 6-2 sigri liðsins á Le Havre í gær.
Enginn hefur deilt um hæfileika Greenwood og var hann með björtustu vonum Manchester United áður en hann var settur til hliðar vegna ásakana um nauðgun og ofbeldi í garð kærustu sinnar.
Englendingurinn var kærður árið 2002 en málið fellt niður þar sem saksóknari taldi málið ekki líklegt til sakfellingar eftir að lykilvitni hættu við að bera vitni.
Greenwood átti ekki afturkvæmt í United, en hann hefur verið að gera það gott erlendis, fyrst á Spáni með Getafe og nú með Marseille.
Framherjinn hefur skorað 7 mörk og gefið 4 stoðsendingar í 10 leikjum á þessari leiktíð og er De Zerbi á því að hann geti komið sér í hóp bestu leikmanna heims.
„Hann hefur hæfileikana til að verða einn af bestu leikmönnum heims,“ sagði De Zerbi.
„Hann er ótrúlega hæfileikaríkur, en getur enn orðið mun gagnlegri fyrir liðið. Ég vil vernda hann því ég er ekki hrifinn af því þegar hann er gagnrýndur. Mason hefur skorað urmul af mörkum og aldrei misst úr æfingu. Hann hefur svigrúm til að vaxa enn frekar,“ sagði ítalski þjálfarinn um Greenwood.
Athugasemdir