Fyrrum Liverpool-maðurinn Don Hutchison segir að félagið ætti að gefa Conor Bradley hægri bakvarðarstöðuna og að Jeremie Frimpong hafi ekki heillað síðan hann kom frá Bayer Leverkusen.
Frimpong var með heitustu bitunum á markaðnum í sumar en Liverpool var ekki lengi að ganga frá kaupunum á honum.
Hann var hugsaður sem arftaki Trent Alexander-Arnold, en þó að vísu með allt önnur vopn í sínu vopnabúri.
Hollendingurinn hefur hins vegar ekki átt neina draumabyrjun með Liverpool og átt erfitt með að aðlagast, eins og svo margir aðrir nýir leikmenn sem komu í sumar.
Hutchison, sem lék með Liverpool frá 1991 til 1994, segir Frimpong hafa verið vonbrigði til þessa.
„Ég myndi hafa Bradley í byrjunarliðinu. Alveg klárt mál. Ég held að Frimpong komist ekki nálægt byrjunarliðinu miðað við formið sem hann er í.“
„Ég hef horft á hvern einasta leik með Liverpool á þessu tímabili og í sumum leikjum, eins og gegn Southampton, var hann bara í því að gefa boltann frá sér. Einfaldar sendingar rötuðu ekki á manninn og sjálfstraustið hans er að hverfa.“
„Hann spilaði á hægri vængnum gegn Galatasaray þar sem Arne Slot var aðeins að skoða hver gæti tekið við af Salah þegar hann fer á Afríkumótið, en Frimpong var líka í basli þar. Við erum að horfa á ungan leikmann sem er að ganga í gegnum erfiðleika.“
„Þegar ég horfi á Liverpool núna sé ég lið sem er í þvílíku móki, svo miklu að þeir þurfa að fara aftur í grunngildin. Það þarf að hafa Bradley í hægri bakverði, en það er aðeins erfiðara að ákveða með vinstri bakvarðarstöðuna. Andy Robertson er enn í miklum metum hjá mér, en maður hefði haldið að hann væri D-deildarleikmaður eftir að hafa séð hann með hendurnar á hnjánum er Estevao skoraði fyrir Chelsea. Ég væri til í að vita hvað hann hafi verið að hugsa þegar hann ákvað að slaka á í þessu atviki. Það er peningakast hvort Kerkez eða Robertson eigi að byrja, en Bradley verður að byrja hægra megin,“ sagði Hutchison.
Athugasemdir