Franski sóknarmaðurinn Randal Kolo Muani gæti þreytt frumraun sína með Tottenham Hotspur er liðið mætir Aston Villa í 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun.
Kolo Muani kom til Tottenham á láni frá Paris Saint-Germain í ágúst en meiddist um miðjan síðasta mánuð.
Framherjinn er búinn að ná sér af meiðslum og segir Thomas Frank, stjóri Tottenham, að Kolo Muani sé að verða klár í slaginn.
„Kolo Muani hefur æft með liðinu í tvær vikur, sem er mjög gott. Hann lítur betur og betur út með hverjum deginum og kemur til greina í hópinn fyrir sunnudag. Það er mjög jákvætt,“ sagði Frank.
Þetta eru frábærar fréttir fyrir Tottenham sem hefur verið án Kolo Muani og Dominic Solanke, og þurft að treysta mikið á brasilíska framherjann Richarlison.
Athugasemdir