Erling Braut Haaland skoraði bæði mörk Manchester City í 2-0 sigri liðsins á Everton í 8. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Hann er nú kominn með 11 mörk í deildinni.
Eftir markalausan fyrri hálfleik tók Haaland málin í sínar hendur og skoraði tvö á fimm mínútum.
Phil Foden sendi Nico O'Reilly í gegn vinstra megin sem kom síðan með frábæra fyrirgjöf á kollinn á Haaland sem stangaði boltann í netið úr miðjum teignum.
Haaland gerði ellefta mark sitt á tímabilinu fimm mínútum síðar. Aftur var það Phil Foden sem tókst í þetta sinn að finna Savinho sem var með gott pláss. Hann kom boltanum út á Haaland sem skaut boltanum meðfram grasinu og framhjá Jordan Pickford í markinu.
Norðmaðurinn í miklu stuði og sá til þess að koma sínum mönnum á toppinn. Man City er með 16 stig, jafnmörg og Arsenal, en betri markatölu.
Crystal Palace og Bournemouth gerðu ótrúlegt 3-3 jafntefli á Selhurst Park.
Hinn 19 ára gamli Eli Junior Kroupi skoraði tvö fyrir Bournemouth í fyrri hálfleiknum.
Frakkinn skoraði sitt fyrsta mark fyrir Bournemouth gegn Leeds í síðasta mánuði og er heldur betur að stimpla sig inn í liðið.
Fyrra markið gerði hann með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu og seinna með föstu skoti eftir að fyrirgjöf Antoine Semenyo fór af varnarmanni og til Kroupi sem skoraði.
Í seinni hálfleiknum svöruðu heimamenn og var það ágætis svar, en Mateta skoraði þá tvö mörk á fimm mínútum. Daniel Munoz lagði snyrtilega upp fyrir Mateta sem gat ekki annað en sett boltann í netið af stuttu færi og seinna markið ekkert ósvipað því sem hann gerði með Frökkum gegn Íslandi á dögunum, nema í þetta sinn fór það í vinstra hornið.
Dramatíkinni var ekki lokið og voru það gestirnir sem komust aftur í forystu. Marcus Tavernier var með boltann vinstra megin í teignum, kom föstum fyrir á Ryan Christie sem þrumaði boltanum í netið.
Í blálokin hélt dramatíkin áfram er Marc Guehi var rifinn niður í teig Bournemouth. Dómarinn dæmdi vítið og var það í kjölfarið staðfest með hjálp VAR.
Mateta á þrennunni, steig á punktinn og skoraði. Önnur þrennan í deildinni fyrir Palace. Hann gat skoraði fjórða markið og tryggt sigurinn undir lokin, en fór illa að ráði sínu úr algeru dauðafæri.
Jafntefli var niðurstaðan á Selhurst Park og bæði lið aðeins tapað einum leik á tímabilinu. Palace er í 8. sæti með 13 stig en Bournemouth í 4. sæti með 15 stig.
Brighton lagði Newcastle að velli, 2-1, á AMEX-leikvanginum í dag.
Danny Welbeck skoraði fyrra mark Brighton á 41. mínútu er hann var sendur í gegn. Hann lyfti boltanum létt yfir Nick Pope í markinu og skoraði sitt þriðja mark á tímabilinu.
Nick Woltemade skoraði fjórða leikinn í röð með Newcastle með stórkostlegu marki á 76. mínútu. Lewis Miley kom boltanum inn á miðjan teiginn á Woltemade sem sneri baki í markið, en ákvað að bjóða upp á lauflétta hælspyrnu sem hann stýrði neðst í vinstra hornið. Stórbrotið mark, en því miður skilaði það litlu fyrir Newcastle.
Á 84. mínútu skoraði Welbeck sigurmarkið eftir frábæra sókn Brighton-manna. Mats Wieffer fékk sendingu í gegn og reyndi skotið, en boltinn af varnarmanni og til Welbeck sem stóð við vítateigslínuna og afgreiddi boltann snyrtilega í fjærhornið.
Brighton í 9. sæti með 12 stig en Newcastle í 12. sæti með 9 stig.
Sunderland bar sigur úr býtum gegn Wolves, 2-0, á leikvangi ljóssins.
Nordi Mukiele skoraði fyrra markið á 16. mínútu eftir skemmtilega sókn heimamanna. Trai Hume fann Mukiele sem slapp á bak við vörn Úlfana og setti boltann undir Sam Johnstone í markinu.
Á lokamínútum leiksins bættu Sunderland-menn við öðru með ágætis hjálp frá Úlfunum. Heimamenn keyrðu fram í skyndisókn, boltinn kom frá Chemsdine Talbi og á Ladislav Krejci sem sparkaði honum klaufalega í eigið net.
Sunderland fer upp í 7. sætið með 14 stig. Ágætis byrjun hjá nýliðunum en Úlfarnir á botninum með aðeins 2 stig.
Burnley vann Leeds 2-0 á Turf Moor. Lesley Ugochukwu skoraði með skalla eftir geggjað fyrirgjöf frá Kyle Walker á 18. mínútu og skoraði Loum Tchaouna fallegt mark á 68. mínútu með skoti fyrir utan teig og yfir Karl Darlow í markinu.
Leeds í 15. sæti með 8 stig en Burnley í 17. sæti með 17 stig.
Úrslit og markaskorarar:
Crystal Palace 3 - 3 Bournemouth
0-1 Eli Junior Kroupi ('7 )
0-2 Eli Junior Kroupi ('38 )
1-2 Jean-Philippe Mateta ('64 )
2-2 Jean-Philippe Mateta ('69 )
2-3 Ryan Christie ('89 )
3-3 Jean-Philippe Mateta ('90 , víti)
Sunderland 2 - 0 Wolves
1-0 Nordi Mukiele ('16 )
2-0 Ladislav Krejci ('90 , sjálfsmark)
Manchester City 2 - 0 Everton
1-0 Erling Haaland ('58 )
2-0 Erling Haaland ('63 )
Brighton 2 - 1 Newcastle
1-0 Danny Welbeck ('41 )
1-1 Nick Woltemade ('76 )
2-1 Danny Welbeck ('84 )
Burnley 2 - 0 Leeds
1-0 Lesley Ugochukwu ('18 )
2-0 Loum Tchaouna ('68 )
Athugasemdir