Liverpool undirbýr tilboð í Williams - Man Utd setur verðmiða á Bruno sem er orðaður við Bayern - Vlahovic orðaður við Barca
banner
   fös 17. október 2025 19:11
Ívan Guðjón Baldursson
Viktor Bjarki lagði upp í fyrsta keppnisleiknum með FCK
Mynd: FCK
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Aðsent
Mynd: Sharjah
Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins víða um Evrópu þar sem hinn bráðefnilegi Viktor Bjarki Daðason lék seinni hálfleikinn fyrir stórlið FC Kaupmannahöfn og lagði upp mark.

Viktor Bjarki er aðeins 17 ára gamall og hefur verið lykilmaður upp yngri landslið Íslands. Þetta var hans fyrsti keppnisleikur með meistaraflokki FCK. Rúnar Alex Rúnarsson sat á bekknum.

Kaupmannahöfn heimsótti Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni í dag og var 3-0 undir í hálfleik. Jacob Neestrup þjálfari gerði þrefalda skiptingu og tóku gestirnir öll völd á vellinum í síðari hálfleiknum.

Silkeborg komst varla yfir miðju eftir leikhléð en varðist vel og tókst að landa 3-1 sigri. Viktor Bjarki lagði upp eina mark FCK í leiknum sem kom á 60. mínútu og var það Viktor Claesson, fyrrum landsliðsmaður Svía, sem skoraði.

Þetta tap er mikill skellur fyrir FCK sem er núna fimm stigum á eftir toppliði AGF, sem á leik til góða. Sigurinn fleytir Silkeborg hins vegar upp um fjögur sæti í fallbaráttunni.

Viktor lék með Fram í Bestu deildinni í fyrra og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með honum á komandi misserum.

Nóel Atli Arnórsson lék þá allan leikinn í vinstri bakverði hjá AaB sem gerði jafntefli við B.93 í næstefstu deild danska boltans.

Álaborg lenti tveimur mörkum undir en tókst að jafna og er liðið með 18 stig eftir 13 umferðir, fimm stigum frá toppliði Hilleröd sem á leik til góða.

Í þriðju efstu deild varði Adam Ingi Benediktsson mark AB í sigri á útivelli í toppslag gegn Næstved. Ægir Jarl Jónasson byrjaði á bekknum.

AB er á toppi deildarinnar með 27 stig eftir 12 umferðir, einu stigi fyrir ofan Roskilde.

Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum var Jóhann Berg Guðmundsson í byrjunarliði Al-Dhafra sem heimsótti lærlinga Milos Milojevic í Al-Sharjah.

Al-Sharjah vann þægilegan 2-0 sigur og er með sjö stig eftir sex umferðir. Al-Dhafra er með níu stig.

Aron Einar Gunnarsson var þá ekki í hóp er Al-Gharafa tapaði óvænt í katarska bikarnum. Liðið tapaði á heimavelli gegn Al-Sailiya sem er botnlið katörsku deildarinnar.

Elías Már Ómarsson lék allan leikinn með Meizhou Hakka sem tapaði í kínversku deildinni og er aðeins tveimur stigum frá fallsæti þegar þrjár umferðir eru eftir.

Valgeir Lunddal Friðriksson er ennþá að glíma við meiðsli og var því ekki með í tapi Fortuna Düsseldorf á heimavelli gegn Eintracht Braunschweig í næstefstu deild þýska boltans.

Að lokum lék María Catharína Ólafsdóttir Grós allan leikinn í tapi Linköping gegn AIK í efstu deild sænska boltans. Linköping er í harðri fallbaráttu, með 15 stig eftir 23 umferðir.

Silkeborg 3 - 1 FC Kaupmannahöfn

B.93 2 - 2 AaB

Næstved 1 - 2 AB

Al-Sharjah 2 - 0 Al-Dhafra

Al-Gharafa 0 - 3 Al-Sailiya

Chengdu Rongcheng 3 - 1 Meizhou Hakka

Dusseldorf 1 - 2 Braunschweig

Linköping 1 - 4 AIK

Athugasemdir
banner