Guehi til sölu - Everton hafnaði fyrirspurnum í Branthwaite - Wharton falur fyrir 70 milljónir
   lau 18. október 2025 10:07
Brynjar Ingi Erluson
Viktor Bjarki er „ljósið í myrkrinu“ en Moukoko þarf að gyrða sig í brók
Viktor Bjarki lagði upp mark í frumraun sinni með FCK
Viktor Bjarki lagði upp mark í frumraun sinni með FCK
Mynd: FCK
Youssoufa Moukoko er ekki sami leikmaður og hann var fyrir þremur árum
Youssoufa Moukoko er ekki sami leikmaður og hann var fyrir þremur árum
Mynd: FCK
Framarinn Viktor Bjarki Daðason lagði upp mark í frumraun sinni með FCK er liðið tapaði óvænt fyrir Silkeborg, 3-1, í dönsku úrvalsdeildinni í gær, en ákvörðun Jacob Neestrup, þjálfara FCK, kom mörgum í opna skjöldu.

Viktor Bjarki kom til FCK frá Fram á síðasta ári og verið að færa sig upp metorðalistann hjá danska félaginu.

Hann hafði verið í hóp í nokkrum leikjum hjá aðalliðinu á þessari leiktíð og fékk loks að spreyta sig í gær er FCK var 3-0 undir í hálfleik.

Viktor, sem er 17 ára, kom inn og lagði upp mark fyrir nafna sinn Viktor Claesson aðeins fimmtán mínútum síðar.

Neestrup ákvað að gefa Viktori sénsinn í stað þess að nota stærsta nafnið á bekknum, Youssoufa Moukoko, sem var eitt sinn titlaður sem efnilegasti leikmaður Evrópu.

„Ég spila bestu leikmönnunum og þess vegna spilaði hann ekki,“ sagði Neestrup við Viaplay, sem að vísu setti Moukoko inn á þegar tíu mínútur voru eftir.

„Mér er drullusama hvaðan þú ert, hvað þú kostar, þénar, hvernig vegabréf þú ert með, hvort þú komir frá KB-höllinni, Íslandi, Danmörku eða þýsku deildinni eða hvað sem þú ert. Ég spila bestu mönnunum og Viktor hefur verið að gera vel og mér fannst hann skila sínu. Ég er hundrað prósent á því að hann átti tækifærið skilið og mér fannst hann koma vel frá leiknum. Þetta er ljósið í myrkrinu,“ sagði hann ennfremur.

Ferill Moukoko hefur farið hratt niður á síðustu árum. Hann var talinn eitt mesta efni heimsins fyrir nokkrum árum og fór með Þjóðverjum á HM í Katar, en frammistaða hans hefur dalað síðan.

Dortmund seldi hann til FCK í sumar þar sem hann hefur skorað fjögur mörk í 20 leikjum. Hann hefur þurft að sætta sig við mikla bekkjarsetu í síðustu leikjum og nú kominn aftast í goggunarröðina.


Athugasemdir