Semenyo og Neves orðaðir við Man Utd - Atletico hefur áhuga á Rashford
   fös 19. desember 2025 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Goðsögn sem Ísland mun ekki gleyma
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Age Hareide.
Age Hareide.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hareide kom inn í landsliðsþjálfarastarf Íslands með ótrúlega góða orku.
Hareide kom inn í landsliðsþjálfarastarf Íslands með ótrúlega góða orku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Orri Steinn Óskarsson og Hareide.
Orri Steinn Óskarsson og Hareide.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hareide á hliðarlínunni á Laugardalsvelli.
Hareide á hliðarlínunni á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru ótrúlega sorglegar fréttir sem bárust í gær. Goðsögn er fallin frá.

Ég gleymi því ekki, í apríl 2023, þegar ég sat fyrsta blaðamannafundinn hjá þá nýjum landsliðsþjálfara Íslands, Age Hareide. Það höfðu verið erfiðir tímar í Laugardalnum mánuðina og árin þar á undan og íslenska landsliðinu hafði alls ekki gengið vel. Strax á þessum fyrsta fundi fann maður fyrir þeirri sterku áru sem Hareide bjó yfir og það var augljóst að koma hans breytti andrúmsloftinu í kringum landsliðið gríðarlega mikið.

Hann mætti á fundinn og var skælbrosandi áður en spurningaflóðið hófst. Eins einfalt og það hljómar, þá skipti það miklu máli því stemningin í kringum landsliðið hafði verið þung í dágóðan tíma. Hareide var hreinn og beinn í svörum sínum frá fyrstu stundu, sem var bæði hressandi fyrir blaðamenn og kærkomið fyrir stuðningsmenn landsliðsins.

Hareide var sjötugur þegar hann tók við íslenska landsliðinu en var engu að síður stútfullur af orku. Hann hafði í raun lagt þjálfunarstörf á hilluna, en Ísland dró hann aftur að hliðarlínunni. Eftir að hafa þjálfað bæði norska og danska landsliðið átti hann eitt ævintýrið eftir – með Ísland. Hann gat einfaldlega ekki sleppt því. Maður var búinn að hugsa um Hareide lengi í tengslum við þetta starf og þetta var bara eitthvað sem átti alltaf eftir að gerast.

„Ég er mjög bjartsýnn. Ef ég væri það ekki þá myndi ég ekki standa hér með þér,“ sagði Hareide í fyrsta viðtalinu sem ég tók við hann.

Í júní sama ár mætti hann svo í útvarpsþáttinn Fótbolti.net í lengra viðtal sem ég fékk þann heiður að taka. Enn á ný mætti hann skælbrosandi á svæðið. Þetta er án efa eitt skemmtilegasta viðtal sem ég hef tekið á mínum rúmlega tíu ára ferli í fjölmiðlum, en þar ræddi hann meðal annars leið sína úr bankastjórastarfi yfir í það að verða einn farsælasti þjálfari í sögu fótboltans á Norðurlöndum.

Það sem Age var fyrst og fremst var afar skemmtilegur maður með brennandi áhuga á fótbolta. Það var stutt í húmorinn hjá honum og blaðamannafundirnir voru bæði líflegir og áhugaverðir, jafnvel þótt þeir færu stundum fram á Zoom. Þrátt fyrir allt það sem hann hafði afrekað þá gaf hann sér alltaf tíma til að ræða málin og það var augljóst að hann naut þess mikið að vera þjálfari Íslands.

Age var mikill sigurvegari en því miður tókst honum ekki að ná markmiðinu sem hann setti sér hér á landi, að koma íslenska landsliðinu á Evrópumótið. Hann var þó bara hársbreidd frá því. Age gaf okkur samt ótrúlega mikið. Með honum kom aftur jákvætt andrúmsloft í kringum landsliðið og undir hans stjórn tóku margir leikmenn næsta skref, þar á meðal Hákon Arnar Haraldsson og Orri Steinn Óskarsson sem eru stjörnur í liðinu í dag. Og svo gaf hann okkur sigur sem aldrei má gleymast – sigur gegn enska landsliðinu á Wembley. Enska liðið fór síðar alla leið í úrslitaleik Evrópumótsins. Ég var sjálfur á Wembley þetta kvöld og það er eitt það eftirminnilegasta sem ég hef upplifað í kringum fótbolta.

Hareide stoppaði stutt við á Íslandi, en hann hefði að öllum líkindum þjálfað hér lengur ef ekki hefði verið fyrir aldur og hrakandi heilsu. Og hver veit nema hann hefði jafnvel komið liðinu á HM 2026 – það voru sannarlega jákvæð teikn á lofti undir hans stjórn, eins og sást svo glöggt þetta sumarkvöld á Wembley.

Síkáti Norðmaðurinn hafði áhrif á líf ótal margra, eins og sást vel í gær þegar fregnir bárust af andláti hans. Þrátt fyrir að tími hans á Íslandi hafi verið stuttur var hann bæði áhrifamikill og mikilvægur fyrir landsliðið okkar.

Minning um góðan, hlýjan og afar vingjarnlegan mann lifir áfram.

Hvíl í friði, Age Hareide.
Athugasemdir
banner