Manchester City hefur áhuga á Douglas Luiz - Neymar er á leið heim í Santos - Chelsea er með 40 milljóna punda verðmiða á Trevoh Chalobah.
   mán 20. janúar 2025 08:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Víkingur með fréttamannafund í dag
Sölvi Ottesen verður kynntur sem nýr þjálfari Víkings í dag.
Sölvi Ottesen verður kynntur sem nýr þjálfari Víkings í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi hefur verið í þjálfarateymi íslenska landsliðsins.
Sölvi hefur verið í þjálfarateymi íslenska landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sölvi Geir Ottesen verður formlega tilkynntur sem nýr þjálfari Víkings á fréttamannafundi sem verður klukkan 14. Hann tekur við af Arnari Gunnlaugssyni sem var ráðinn landsliðsþjálfari Íslands í síðustu viku.

Sölvi var aðstoðarmaður Arnars og þá var hann einnig í þjálfarateymi íslenska landsliðsins sem sérfræðingur í föstum leikatriðum. Arnar greindi frá því á fimmtudaginn að Sölvi yrði ekki áfram í landsliðsteyminu þar sem hann væri að taka við sem aðalþjálfari Víkings.

Fyrsta verkefni Sölva með stjórnartaumana hjá Víkingi verður heldur betur stórt, einvígi við gríska stórliðið Panathinaikos í umspili Sambandsdeildarinnar í febrúar.

„Nú fær Sölvi stóra verkefnið í fangið. Leikmennirnir þurfa kannski að endursýna sig fyrir nýjum aðalþjálfara því Arnar hefur verið með ákvarðanatökurnar á sínum snærum. Nú er það Sölvi. Mögulega hafa þeir ekki alltaf verið sammála," segir Baldvin Már Borgarsson í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

„Þegar Sölvi er settur í þetta hlutverk þegar hann hættir sem leikmaður er búið að leggja fyrir hann leiðina að því að verða þjálfari."

Í tölvupósti til fjölmiðla kemur fram að á fundinum í dag verði tilkynnt um nýjan þjálfara og þjálfarateymið í kringum hann. Í útvarpsþættinum kom fram að Aron Baldvin Þórðarson, sem hefur verið þjálfari 2. flokks Víkings og starfað í teymi meistaraflokks þar sem hann hefur verið í leikgreiningu, verði Sölva til aðstoðar.

Sölvi er 40 ára gamall og lék á leikmannaferli sínum 28 landsleiki fyrir Ísland. Hann er uppalinn Víkingur og vann Íslandsmeistaratitil sem leikmaður liðsins 2021 og varð tvisvar bikarmeistari, hann varð tvívegis Danmerkurmeistari með FCK í Kaupmannahöfn, vann sænska meistaratitilinn með Djurgarden og varð bikarmeistari í Kína með Jiangsu Sainty.

Hann fór í þjálfun eftir að ferlinum lauk, varð aðstoðarþjálfari Víkings og vann að auki í teymi U21 og A-landsliðsins.
Útvarpsþátturinn - Arnar valinn til að leiða land og þjóð
Athugasemdir
banner
banner
banner