Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 20. september 2016 14:40
Daníel Rúnarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Skammtímagróði blindar langtímasýn KSÍ
Daníel Rúnarsson
Daníel Rúnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag barst sú frétt að Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, hafi fyrir hönd sambandsins afþakkað boð EA Sports, framleiðanda FIFA leikjanna um að karlalandslið Íslands yrði á meðal landsliða í næstu útgáfu leiksins, FIFA 17. Geir segist hafa afþakkað boðið vegna þess að tilboð EA Sports um greiðslu hafi verið of lágt.

Óhætt er að segja að viðbrögð knattspyrnuáhugamanna hafi verið á einn veg. Enginn skilur ákvörðun formannsins. Eðlilega, enda vilja Íslendingar spila leikinn með sínum EM-hetjum. Við viljum geta skorað á aðra spilara leiksins með strákana okkar að vopni. Og fagna svo með góðu víkingaklappi þegar sigur er í höfn. Við hefðum jafnvel getað hefnt ófaranna á Stade de France. Sjálfur hefði ég klínt honum í vinkilinn fjær með Gylfa Sig. Óverjandi fyrir Hugo Lloris. En nei, það verður ekki.

En fúllyndi vegna þess að geta ekki spilað sem Ísland í FIFA17 er ekki eina ástæða þessa pistils. Ég hef einnig áhuga á markaðsmálum. Og það er á því sviði sem þessi ákvörðun Geirs Þorsteinssonar er enn galnari.

Árið 2016 er ár íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á heimsvísu. Athygli allra er á knattspyrnumönnum Íslands. Augnablikið er okkar. Jafnvel í Austur Úkraínu rétt hjá landamærum rússneska yfirráðasvæðisins, þar sem ég er staddur þegar þessi pistill er skrifaður, spyrja menn út í árangur íslenska landsliðsins. Ég hélt að þeir hefðu um annað að hugsa.

Búningar landsliðsins seldust í slíku magni víða um Evrópu að auka árshátíð var haldin hjá Errea. Framleiðandinn ætlar að bjóða strákunum okkar til æfinga í Parma, fyrir landsleikinn við Tyrki.

Þetta augnablik kemur ekki aftur.

Markaðstækifærið sem felst í því að íslenska landsliðið, íslenski landsliðsbúningurinn og nafn KSÍ sé hluti af leik sem seldur er í tugmilljónum eintaka er ómetanlegt. Líklegt verður að þykja að mikið hefði verið gert úr þátttöku Íslands, rétt eins og EA Sports gerðu töluvert úr víkingaklappinu í nýjustu kynningu leiksins.

Vissulega er það rétt að ef mið er tekið af heildarveltu leiksins er sú eina milljón, eða þar um bil, sem formanninn minnir að EA Sports hafi boðið, ekki sérstaklega hátt. Hann segist verða að vernda réttindi KSÍ. En hvers virði eru réttindi sem geymd eru ofan í skúffu? Hvar annarsstaðar ætlar Geir að fá fjármagn fyrir þessi réttindi? Það er enginn annar leikur sem kemst með tærnar þar sem FIFA hefur hælana.

Ég er því ekki viss um að almennir spilarar FIFA á Íslandi séu þeir einu sem eru fúlir í dag. Búningaframleiðandi Íslands, Errea, getur varla verið sáttur við að fá ekki tækifæri til að kynna sig. Félögin sem standa að KSÍ eru varla sátt við að missa af þeim tekjum sem hefðu getað komið. Og síðast en ekki síst eru strákarnir okkar varla sáttir við að missa af þessu tækifæri til að koma sér á framfæri. Það er ekkert launungamál að markaðsmál einstakra leikmanna geta gefið þeim vel í aðra hönd. Jafnvel meira en þeir fá í launatekjur.

Ég held að KSÍ hafi gert mikil mistök með ákvörðun sinni. Réttast væri að viðurkenna þau mistök, hafa samband við EA Sports og koma Íslandi aftur inn í leikinn.

p.s.: Fyrir fróðleiksfúsa um markaðstækifærið sem það er að vera í FIFA leiknum bendi ég á þessa grein um bandarísku deildina MLS og hvernig FIFA hefur haft mikil jákvæð áhrif á deildina.

http://soccerly.com/article/pavelardo/fifa-15-and-its-influence-in-us-soccer
Athugasemdir
banner
banner
banner