Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 21. febrúar 2023 11:55
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Vilja að kjörtímabil formanns verði lengt í fjögur ár
Vanda Sigurgeirsdóttir
Vanda Sigurgeirsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal.
Frá höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ leggur til að kjörtímabil formanns verði lengt úr tveimur árum í fjögur ár en kosið verður um málið á ársþingi sambandsins um næstu helgi.

Starfshópur sem var stofnaður um stjórnskipulag KSÍ leggur þetta til en Vanda Sigurgeirsdóttir, sitjandi formaður KSÍ, var sjálf í starfshópnum.

Vanda hefur verið formaður KSÍ síðan 2021 en hún er fyrsta konan til sem er formaður sambandsins.

Hún var fyrst formaður fyrir bráðabirgðastjórn en var svo kjörin til tveggja ára á ársþinginu fyrir ári síðan. Kjörtímabili hennar lýkur því eftir eitt ár. Vanda fær tæpar 20 milljónir í laun fyrir starf sitt sem formaður KSÍ á síðasta ári en þetta kemur fram í ársreikningi KSÍ.

Þessari tillögu fylgir engin sérstök skýring
„Það kom mér á óvart að þetta hafi komið út úr þessum hópi sem fór með stjórnskipulagið. Þessi tillaga var tekin fyrir 2018, þá var reyndar talað um að lengja úr tveimur í þrjú ár. Eftir umræðu á því þingi var öllum tillögunum vísað til baka og átti að taka þær aftur fyrir 2019. Þá var búið að taka tillöguna um lenginguna á kjörtímabilinu út," sagði Þórir Hákonarson, fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, þegar rætt var um þessa tillögu í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 síðasta laugardag.

„Þingið var fyrir nokkrum árum eiginlega búið að hafna þeirri tillögu um að lengja kjörtímabil formanns. Mér finnst skrítið að þetta komi fram aftur núna, eftir að svona skammt er síðan þessu var vísað í burtu."

Rökin fyrir því að lengja kjörtímabilið er sú að tvö ár séu of skammur tími til að láta verkin tala í formannsstólnum en Þórir er ekki sammála því.

„Ég er ekki endilega sammála því, þú ert með tvö ár til að láta ljós þitt skína. Ef það er gerð grein fyrir því á hvaða vegferð þú og stjórnin eruð þá þurfa menn ekkert að óttast það. Ef upplýsingarnar liggja fyrir. Mér finnst ekki ástæða til þess að lengja kjörtímabilið. Þessari tillögu fylgir engin sérstök skýring, þetta er bara sett þarna inn. Það hljóta að koma frekari skýringar á þessu."

„Mér finnst það hafa gefist ágætlega að hafa tveggja ára kjörtímabil. Það sýnir ákveðið aðhald og ef upplýsingarnar liggja allar fyrir um á hvaða vegferð viðkomandi formaður er og sú stjórn sem kosin er þá þarf ekkert að óttast að láta kjósa um verk sín á tveggja ára fresti."

Fótbolti.net mun síðar í dag birta viðtal við Vöndu þar sem hún er meðal annars spurð út í þessa tillögu. Ársþing KSÍ verður haldið á Ísafirði um komandi helgi.
Útvarpsþátturinn - Rúnar Páll, Kórdrengir kveðja og ársþingið
Athugasemdir
banner
banner