Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 21. maí 2020 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Raggi Sig klár í slaginn fyrir æfingaleik á morgun
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmiðvörðurinn Ragnar Sigurðsson er búinn að ná sér af meiðslum og gæti hann spilað með FC Kaupmannahöfn þegar liðið mætir OB í æfingaleik á morgun.

Meiðsli hafa verið að hrjá Ragnar og gat hann ekki tekið þátt í leikjunum sem spilaðir voru áður en kórónuveirufaraldurinn skall á í Evrópu og setti allt fótboltahald í biðstöðu.

Hann er hins vegar búinn að jafna sig í hléinu og spilar með FCK í æfingaleik á morgun. Danska úrvalsdeildin á að hefjast aftur í lok þessa mánaðar.

Hinn 33 ára gamli Ragnar sneri aftur til Kaupmannahafnar í janúar síðastliðnum eftir dvöl í Rússlandi hjá Rostov. Hann lék áður með FCK frá 2011 til ársins 2014. Í janúar gerði Raggi samning til 30. júní, en vegna kórónuveirunnar eiga félög í Danmörku kost á að framlengja samninga við leikmenn um einn mánuð svo að þeir klári tímabilið með félögunum.

Leikmennirnir sem voru að renna út á samningi í sumar eru nú samningsbundnir til 31. júlí en möguleiki er á að samningarnir verði framlengdir til lengri tíma þar sem FCK á eftir að mæta Istanbul Basaksehir í Evrópudeildinni og líklegt er að sá leikur verði í ágúst.

FCK er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnr, 12 stigum á eftir toppliði Midtjylland. Mikael Neville Anderson leikur með Midtjylland.
Athugasemdir
banner
banner
banner