Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fim 21. september 2023 23:01
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Baldur vill sjá Blika kaflaskipta leik sínum meira
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Breiðablik er þekkt fyrir að spila frábæra pressu en Baldur Sigurðsson telur að Óskar Hrafn Þorvaldsson þurfi að setja leikina upp öðruvísi í Sambandsdeildinni en hann hefur verið vanur að gera síðustu ár.


Lestu um leikinn: Maccabi Tel Aviv 3 -  2 Breiðablik

„Ég verð að vera ósammála Óskari, mér finnst hann tala of mikið um það að það sé bara þetta eina 'gameplan' að þeir séu bestir í því, sem þeir eru vissulega mjög góðir í, að hápressa lið. Þeir þurfa að þora og koma á erfiða útivelli og þora að hlaupa með þeim og þetta hafi sýnt þeim að þeir geta það," sagði Baldur en hann var sérfræðingur á Stöð 2 Sport yfir leik Maccabi Tel Aviv gegn Breiðabliki í Sambandsdeildinni í kvöld.

„Þetta finnst mér eðlilegt þegar þeir eru á heimavelli, þetta eiga þeir að gera á heimavelli, sérstaklega á Kópavogsvelli. Nú mega þeir ekki spila þar, verða á Laugardalsvelli, samt sem áður er það umhverfi sem þeir þekkja. Þú þarft ekki að vera lítill í þér til að liggja til baka og verjast vel."

Óskar Hrafn talaði um það í viðtali eftir leikinn að honum hafi fundist sínir menn litlir í sér í upphafi leiks.

„Ég hafði aldrei á tilfinningunni þegar ég horfði á fyrri hálfleikinn að Blikar væru litlir í sér. Ég skil það vel að Óskar sér það þannig því hann lagði leikinn upp. Hann veit nákvæmlega hvað hann bað þá um að gera og þeir eru ekki að þora að gera það. Það pirrar hann hugsanlega mest," sagði Albert Brynjar Ingason sem var einnig sérfræðingur á Stöð 2 Sport í kvöld.

„Ég ber virðingu fyrir þessu uppleggi. Þetta er það sem þeir hafa verið að gera síðan Óskar kom árið 2019. Nú eiga þeir eftir að fara til Belgíu og svo spila við Zorya, hvar sem það verður spilað. Þetta verður alltaf svo erfitt út af gæðunum í liðunum. Ég held að það verði alltaf árangursríkara að fara á þessa útivelli og kaflaskipta þessu aðeins meira. Vissulega koma þessi pressu móment og þá gera þeir það vel síðan verða þeir að geta fallið niður og sinnt varnarvinnunni vel," sagði Baldur.

Næstu leikir Blika í Sambandsdeildinni:

fimmtudagur 5. október
16:45 Breiðablik-Zorya Luhansk (Laugardalsvöllur)

fimmtudagur 26. október
16:45 Gent-Breiðablik (KAA Gent Stadium)

fimmtudagur 9. nóvember
20:00 Breiðablik-Gent (Laugardalsvöllur)


Athugasemdir
banner
banner
banner