Breiðablik tapaði gegn ísraelska liðinu Maccabi Tel Aviv ytra í kvöld í sínum fyrsta leik í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Damir Muminovic varnarmaður Breiðabliks var svekktur í leikslok.
Lestu um leikinn: Maccabi Tel Aviv 3 - 2 Breiðablik
„Frammistaðan var nokkuð góð. Mér fannst við bera alltof mikla virðingu fyrir þeim í byrjun. Það var fúlt að fá á sig þessi þrjú mörk, við verðum að gera betur varnarlega," sagði Damir í viðtali sem birtist á Vísi.
„Við erum ekki þekktir fyrir að gefast upp þegar það er búið að berja okkur niður í jörðina. Það er samstaða í hópnum og það lögðu sig allir fram fyrir hvorn annan í dag."
Damir elskar stóra sviðið.
„Þetta var geggjuð frumraun. Ég þrífst á svona aðstæðum og látum, það kemur mér í gang. Frumraunin búin, við erum ekki komnir hingað til að taka þátt, við ætlum að reyna að vinna leiki," sagði Damir.