Færeyski framherjinn Klæmint Olsen leikmaður Breiðabliks skráði sig á spjöld sögunnar í íslenskum fótbolta þegar hann skoraði bæði mörk liðsins í 3-2 tapi gegn Maccabi Tel Aviv í fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í kvöld.
Lestu um leikinn: Maccabi Tel Aviv 3 - 2 Breiðablik
Klæmint var í viðtali á Facebook síðu Breiðabliks eftir leikinn.
„Það er alltaf góð tilfinning að skora mörk en að lokum töpuðum við og ég er mjög svekktur akkúrat núna en ég verð kannski ánægður síðar," sagði Klæmint.
Klæmint er staðráðinn í því að liðið muni ná betri úrslitum þegar Maccabi Tel Aviv mætir á Laugardalsvöll þann 30. nóvember.
„Fyrstu 20 mínúturnar vorum við ekki þar sem við áttum að vera. Fyrstu 20 mínúturnar drápu okkur. Við þurfum að bæta okkur sem lið fyrir næsta leik," sagði Klæmint.
„Við trúum því að við getum það. Ef við hefðum spilað allan leikinn eins og síðustu 70 mínúturnar hefðum við fengið að minnsta kosti stig."