ÍBV gerði jafntefli gegn Aftureldingu í fyrstu umferð í neðri hlutanum í Bestu deildinni í dag. Fótbolti.net ræddi við Þorlák Árnason, þjálfara ÍBV, eftir leikinn.
Lestu um leikinn: ÍBV 1 - 1 Afturelding
„Við erum drullusvekktir að ná ekki að klára þetta. Við fengum helvíti góð færi en að sama skapi var eitthvað sem við vorum að gera rétt. Við sköpuðum okkur mikið af opnum færum þegar við komumst yfir. Við þurfum að setja þau færi, einn á móti markmanni tvisvar. Þetta er fótboltinn, þetta er það sem þið fjölmiðlafólk elskið, að hafa spennu í þessu," sagði Láki.
ÍBV komst yfir með stórkostlegu marki Alex Freys Hilmarssonar beint úr aukaspyrnu en jöfnunarmarkið kom einnig úr aukaspyrnu undir lok leiksins.
„Ég ætla ekki að fara kenna dómaranum um en það var sennilega aukaspyrna á Aftureldingu í aðdragandanum sem hann sleppir. Fyrst að svo var þá áttum við að taka leikmanninn niður fyrr og fórna gulu spjaldi. Stundum þarf maður að vera pínu bófi til að loka leikjum," sagði Láki.
ÍBV er sex stigum frá fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir. Liðið heimsækir Vestra í næstu umferð.
„Við töpuðum báðum leikjunum fyrir Vestra í sumar. Það er fínt tækifæri til að kvitta fyrir það núna."
„Þetta mót sem við erum að upplifa er þannig að það var fullt af liðum sem vildi komast í efri hlutann til að sleppa við fall. Eins og með FH, Fram og Vestra og önnur, það vildi enginn lenda í neðri hlutanum því deildin er svo jöfn. Afturelding er neðsta liðið í deildinni, frábært fótboltalið. Þetta er einstakt mót sem við erum að ganga í gegnum. Það var smá einbeiting sem fór hjá okkur og okkur var refsað," sagði Láki.
Besta-deild karla - Neðri hluti
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. KA | 23 | 9 | 5 | 9 | 33 - 41 | -8 | 32 |
2. ÍBV | 23 | 8 | 6 | 9 | 25 - 29 | -4 | 30 |
3. Vestri | 23 | 8 | 3 | 12 | 23 - 32 | -9 | 27 |
4. ÍA | 23 | 8 | 1 | 14 | 30 - 43 | -13 | 25 |
5. KR | 23 | 6 | 6 | 11 | 44 - 55 | -11 | 24 |
6. Afturelding | 23 | 5 | 7 | 11 | 30 - 40 | -10 | 22 |
Athugasemdir