U21 landsliðsmaðurinn Nóel Atli Arnórsson átti frábæra innkomu af bekknum í 3-0 sigri Álaborgar á B93 í dönsku B-deildinni í dag.
Nóel Atli hefur verið inn og út úr liði Álaborgar á tímabilinu, en hann reynir nú hvað hann getur til þess að gera byrjunarliðssætið að sínu til frambúðar.
Hann kom inn af bekknum í hálfleik og var réttur maður á réttum stað aðeins sjö mínútum síðar er hann skoraði þriðja mark liðsins til að sigla sigrinum heim.
Ísak Snær Þorvaldsson kom þá inn af bekknum hjá Lyngby sem vann öruggan 4-0 sigur á HB Köge.
Lyngby er á toppnum með 18 stig en Álaborg í 7. sæti með 11 stig.
Kristall Máni Ingason og Rúnar Þór Sigurgeirsson byrjuðu báðir hjá SönderjyskE sem gerði 2-2 jafntefli við Velje í dönsku úrvalsdeildinni, en landsliðsmaðurinn Daníel Leó Grétarsson var ekki með.
Sönderjyske er í 9. sæti með 11 stig.
Hólmbert Aron Friðjónsson kom inn af bekknum í síðari hálfleik er Gwangju tapaði fyrir Seoul, 3-0, í suður kóresku úrvalsdeildinni.
Gwangju er í 6. sæti deildarinnar með 41 stig eftir 30 leiki spilaða.
Kolbeinn Þórðarson byrjaði hjá Gautaborg sem tapaði fyrir Brommapojkarna, 1-0, í sænsku úrvalsdeildinni. Hlynur Freyr Karlsson var ekki í leikmannahópnum hjá Brommapojkarna.
Gautaborg er í 5. sæti með 40 stig en Brommapojkarna í 9. sæti með 29 stig.
Athugasemdir