
Stefan Ljubicic var tveggja marka maður í 3-0 sigri Keflavíkur á Njarðvík fyrr í dag á JBÓ vellinum í Njarðvík í undanúrslitum umspils Lengjudeildarinnar. Sigurinn fleytir Keflavík í úrslit þar sem liðið mætir HK í úrslitaleik um sæti í Bestu deildinni að ári. Stefan var til viðtals við Fótbolta.net að leik loknum.
Lestu um leikinn: Njarðvík 0 - 3 Keflavík
„Þetta er bara geggjað. Við gerðum það sem við ætluðum okkur sem var bara að sækja og sækja og vörðumst svo vel.“
Keflvíkingar voru með bakið upp við vegg eftir 2-1 tap á heimavelli í fyrri leik liðanna en sneru við taflinu í dag. Hver var munurinn á leik liðsins?
„Ég held að við höfum verið stressaðir. Það var samt margt í þessu, við þorðum meira og sóttum meira, Svo féll allt á einhvern hátt fyrir okkur. Góðir sóknar og varnarlega.“
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Marin Mudrazija Keflavík yfir með frábæru marki. Stefan fannst mikið til koma
„Þetta var fáránlegt mark, ég greip bara um höfuðið og trúði þessu ekki. Gott fyrir hann líka.“
Framundan er sem fyrr segir viðureign við HK um sæti í Bestu deildinni en Stefan er góðkunningi efri byggða Kópavogs eftir að hafa leikið með liðinu um tíma. Verkefnið leggst væntanlega vel í hann.
„Geggjað að spila svona stóran leik gegn sínu gamla félagi. Ég hef alltaf elskað HK en þetta verður bara bardagi og eg vona bara að menn fjölmenni á völlinn og þetta verður snilld.“
Sagði Stefan en allt viðtalið má sjá hér að ofan.
Athugasemdir