Liverpool fær samkeppni frá Real Madrid - Barcelona á eftir Haaland - Man Utd býður Mainoo í skiptum fyrir Valverde
   sun 21. september 2025 15:04
Brynjar Ingi Erluson
England: Tíu leikmenn Sunderland náðu í stig - Markalaust í Bournemouth
Wilson Isidor bjargaði stigi með þriðja deildarmarki sínu
Wilson Isidor bjargaði stigi með þriðja deildarmarki sínu
Mynd: AFC Sunderland
Matty Cash skoraði fyrsta mark Villa á tímabilinu
Matty Cash skoraði fyrsta mark Villa á tímabilinu
Mynd: EPA
Newcastle náði í stig í Bournemouth
Newcastle náði í stig í Bournemouth
Mynd: EPA
Tíu leikmenn nýliða Sunderland gerðu 1-1 jafntefli við Aston Villa í fimmtu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á leikvangi ljóssins í dag. Vandræði VIlla-manna halda áfram, en liðið hefur ekki enn unnið leik á tímabilinu.

Villa-menn hafa verið hrikalega ósannfærandi í byrjun leiktíðar á meðan Sunderland hefur byrjað vel.

Fyrri hálfleikurinn bauð ekki upp á mörg upplögð dauðafæri, en Villa fékk besta færið er Evan Guessand fékk boltann í teignum eftir aukaspyrnu og skaut að marki, en Robin Roefs varði skotið út á Ollie Watkins sem náði ekki að klára frákastið. Watkins var að vísu rangstæður þannig það hefði ekki talið hvort er.

Nokkrum mínútum síðar urðu Sunderland-menn fyrir mikilli blóðtöku er Reinildo fékk glórulaust rautt spjald fyrir að sparka í punginn á Matty Cash.

Aðdragandinn var stuttur en Cash hafði farið utan í Reinildo sem hafði skilað boltanum frá sér og lá þessi ágæti landsliðsmaður Mósambík í grasinu. Hann brást illa við og sparkaði í punginn á Cash og fékk réttilega að líta rauða spjaldið.

Sunderland var síst lakari aðilinn þrátt fyrir að vera manni færri og var Omar Alderete hársbreidd frá því að skora er hann stangaði boltanum í þverslá eftir að Villa mistókst að hreinsa.

Á 67. mínútu dró til tíðinda. Aston Villa skoraði fyrsta deildarmark sitt á tímabilinu er Cash þrumaði boltanum fyrir utan teig og sigraði þar Roefs í markinu. Boltinn flökti aðeins, en hann var samt beint á markið og átti Hollendingurinn að gera betur.

Markið sló ekki Sunderland út af laginu heldur gerði það hið þveröfuga. Þeir pressuðu á Villa og náðu inn jöfnunarmarki er Granit Xhaka, fyrirliði Sunderland, mætti háum bolta fyrir utan teig, stangaði hann inn fyrir á Wilson Isidor sem skoraði nokkuð örugglega framhjá Emiliano Martínez.

Gestirnir fengu nokkur færi til að sækja fyrsta sigurinn á tímabilinu. Harvey Elliott, sem kom inn á sem varamaður, setti boltann rétt framhjá og þá fór Ollie Watkins illa með dauðafæri eftir fyrirgjöf Jadon Sancho.

Gekk ekkert upp hjá Villa sem er enn án sigurs í 18. sæti með 3 stig á meðan Sunderland fer upp í 7. sætið með 8 stig.

Markalaust í Bournemouth

Bournemouth og Newcastle gerðu markalaust jafntefli á Vitality-leikvanginum.

Heimamenn í Bournemouth voru betri aðilinn í fyrri hálfleiknum og sköpuðu sér nokkur ágætis færi. Það var kannski við því að búast að þetta yrði svolítið erfitt hjá Newcastle eftir sjö breytingar Eddie Howe á byrjunarliðinu og að liðið hafi spilað í Meistaradeildinni í miðri viku.

Eftir um það bil hálftímaleik vildu heimamenn fá vítaspyrnu er David Brooks þrumaði aukaspyrnu sinni í höndina á Sandro Tonali sem slapp með skrekkinn í þetta sinn.

Seinni hálfleikurinn var hálf leiðinlegur. Færin mátti telja á annarri hendi og kannski helsta atvikið þegar Nick Woltemade féll með tilþrifum í teignum, en hefði verið hart að dæma vítaspyrnu.

Markalaust jafntefli var niðurstaðan. Bournemouth fer upp í 3. sætið með 10 stig en Newcastle er með 6 stig í 13. sæti.

Bournemouth 0 - 0 Newcastle

Sunderland 1 - 1 Aston Villa
0-1 Matty Cash ('67 )
1-1 Wilson Isidor ('75 )
Rautt spjald: Reinildo Mandava, Sunderland ('33)
Athugasemdir
banner
banner