„Leit að nýjum þjálfara U21 landsliðs karla mun hefjast von bráðar," sagði í yfirlýsingu KSÍ í gær þegar tilkynnt var að Ólafur Ingi Skúlason væri hættur sem þjálfari U21, að eigin ósk, til að taka við Breiðabliki. U21 landsliðið er í miðri undankeppni og mun mæta Lúxemborg á útivelli þann 13. nóvember.
Hér má sjá tíu nöfn sem eru líkleg til að koma upp í umræðunni í Laugardalnum þegar leitað er að nýjum þjálfara.
Ejub Purisevic - Hefur reynslu og þekkingu sem gæti svo sannarlega nýst KSÍ vel. Gerði magnaða hluti í Ólafsvík og hefur síðan starfað við þjálfun efnilegra leikmanna hjá Stjörnunni og nú FH. Maður sem hlýtur að vera á blaði í Laugardalnum.
Halldór Árnason - Augljóst nafn á þennan lista fyrst hann var að verða laus. Vann Íslandsmeistaratitilinn með Breiðabliki á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari í efstu deild.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson - Einn áhugaverðasti þjálfari landsins um þessar mundir. Hætti hjá Njarðvík eftir tímabilið. Þekkir landsliðs- og atvinnumannaumhverfið vel.
Eiður Smári Guðjohnsen - Nafn sem þarf ekki að kynna. Var aðstoðarþjálfari U21 og síðan A-landsliðsins en var látinn fara 2021 vegna persónulegra vandamála. Fær hann annað tækifæri í Laugardalnum?
Ómar Ingi Guðmundsson - KSÍ er hrifið af stólaleiknum og ráða menn innanhúss. Þar gæti Ómar verið afar góður kostur en hann starfar við þjálfun yngri landsliða og hefur þrátt fyrir ungan aldur mikla reynslu í þjálfun ungra leikmanna og sem meistaraflokksþjálfari hjá HK.
Magnús Már Einarsson - Hefur gert frábæra hluti með Aftureldingu en samningur hans rennur út eftir tímabilið. Hefur sýnt að hann gerir leikmenn sem hann vinnur með betri.
Lárus Orri Sigurðsson - Fór úr sjónvarpinu og tók við ÍA þar sem hann hefur náð eftirtektarverðum árangri. Samdi út tímabilið og óvíst hvað tekur við.
Aron Baldvin Þórðarson - Aðstoðarþjálfari Sölva Geirs Ottesen hjá Íslandsmeisturum Víkings. Ungur spennandi þjálfari sem fer mjög gott orð af.
Srdjan Tufegdzic - Það virðist ansi líklegt að Túfa verði ekki áfram með Valsliðið. Gæti reynst góður kostur fyrir U21 landsliðið.
Athugasemdir