banner
   mið 22. mars 2023 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þjálfari Ísaks Óla rekinn
Ísak Óli er leikmaður Esbjerg.
Ísak Óli er leikmaður Esbjerg.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Esbjerg tilkynnti í dag að félagið hefði sagt skilið við þjálfarann Lars Vind og ráðið Lars Sörensen í hans stað. Sörensen fær samning sem gildir fram á sumarið.

Vind tók við sem aðalþjálfari síðasta sumar en var látinn taka pokann sinn í dag eftir 1-0 tap gegn Hellerup um helgina. Esbjerg er í 2. deild (C-deild) og ætlar sér ekkert annað en sæti í næstefstu deild á næsta tímabili, ekkert annað kemur til greina.

Í þremur leikjum eftir vetrarfrí er stigasöfnunin ekki nægilega góð, tvö töp og einn sigur staðreynd. Liðið er í fjórða sæti en þó einungis tveimur stigum frá öðru sæti og fjórum stigum frá toppsætinu.

Esbjerg hefur fallið niður um tvær deildir á síðustu árum sem er óviðunandi og er félagið að þeirri stærðargráðu að það vill alltaf vera í efstu deild. Þrjár umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni en svo tekur við tvöföld umferð milli efstu sex liðanna um hvaða tvö lið fara upp í B-deildina.

Ísak Óli Ólafsson er leikmaður liðsins, hann hefur verið fastamaður á tímabilinu og skorað þrjú mörk. En hann hefur ekki spilað í síðustu þremur leikjum, var á bekknum í fyrsta leik eftir vetrarfrí og ekki í hópnum í síðustu tveimur leikjum. Ísak er 22 ára miðvörður sem á rúmt ár eftir af samningi sínum við félagið.
Athugasemdir
banner
banner
banner