Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fim 22. apríl 2021 07:00
Brynjar Ingi Erluson
Bale: Þetta snýst ekki um mig
Gareth Bale í leik með Tottenham
Gareth Bale í leik með Tottenham
Mynd: Getty Images
Gareth Bale, leikmaður Tottenham Hotspur, var ánægður með framlag leikmanna í 2-1 sigrinum á Southampton í gær en hann er orðinn þreyttur á að vera helsta umræðuefnið í hópnum.

Bale skoraði jöfnunarmarkið gegn Southampton í gær en Heung-Min Son skoraði svo sigurmarkið úr vítaspyrnu undir lok leiksins.

Þetta var fyrsti deildarsigur liðsins síðan 21. mars og mikilvægur fyrir Evrópubaráttu Tottenham.

„Southampton mættu okkur og það reyndi vel á okkur í fyrri hálfleik. Við höfum bara haft nokkra daga með nýja stjóranum og það mun taka tíma að gera þá hluti sem hann vill. Við áttum gott spjall í hálfleik um hvað við vildum bæta og við gerðum það í síðari hálfleiknum og náðum að stjórna leiknum og áttum því sigurinn skilið," sagði Bale.

„Við þurfum að vera þolinmóði og eins og ég sagði þá höfum við bara verið að vinna í nokkra daga með stjóranum þannig við þurfum bara að vinna í nokkrum smáatriðum. Við munum halda áfram að bæta okkur fyrir bikarúrslitaleikinn um helgina."

Ensku blöðin skrifa mikið um Bale og endurkomu hans til Tottenham en hann vill þó ítreka það að þetta snúist ekki bara um hann.

„Það var mikilvægt fyrir mig að skora en meira mikilvægt fyrir liðið, félagið og stuðningsmennina. Þetta snýst ekki um mig. Það tala allir um mig en þetta er ekki um mig. Mér er alveg sama um mig og eina sem ég vil er að hjálpa Tottenham og það var því mikilvægt að ná í sigur og nú eigum við enn möguleika á Meistaradeildarsæti. Við munum halda áfram að berjast fyrir því," sagði hann ennfremur.

Bale skaut þá létt á Jose Mourinho sem var rekinn frá Tottenham á dögunum.

„Við þurfum að sækja meira. Við erum stórt lið með frábæra leikmenn og við þurfum að sækja töluvert meira og vera hærra uppi á vellinum."

Tottenham var eitt af félögunum sem stofnuðu Ofurdeildina en félagið hætti við þátttöku eftir mikla pressu frá stuðningsmönnum, UEFA og enska knattspyrnusambandinu.

„Við höfum bara verið að einbeita okkur að því að koma nýja stjóranum vel fyrir. Þetta mál er búið, það verður ekkert af þessari deild og núna getum við haldið áfram," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner