Það fóru tveir leikir fram í ítalska boltanum í kvöld þar sem Albert Guðmundsson lék stærsta hluta leiksins er Genoa heimsótti Lecce.
Lecce 1 - 0 Genoa
1-0 Remi Oudin ('84)
Rautt spjald: Aaron Martin, Genoa ('36)
Lecce var talsvert sterkari aðilinn á heimavelli en átti í miklum erfiðleikum með að brjóta varnarmúr Genoa á bak aftur. Það hjálpaði þó þegar spænski bakvörðurinn Aarón Martín fékk að líta rauða spjaldið fyrir ansi litlar sakir.
Martin fékk seinna gula spjaldið sitt á 36. mínútu og er dómurinn afar umdeildur, en staðan hélst þó markalaus allt þar til á lokakaflanum.
Lecce skapaði sér lítið af færum en það var Remi Oudin sem töfraði fram sigurmark með bylmingsskoti langt utan vítateigs á 84. mínútu.
Genoa er með fjögur stig eftir fimm umferðir á nýju tímabili. Lecce er aftur á móti í öðru sæti með ellefu stig.
Salernitana 1 - 1 Frosinone
0-1 Simone Romagnoli ('12)
1-1 Jovane Cabral ('52
Salernitana gerði þá 1-1 jafntefli við nýliða Frosinone eftir að Simone Romagnoli tók forystuna fyrir nýliðana á tólftu mínútu.
Frosinone leiddi í hálfleik en Jovane Cabral jafnaði í upphafi síðari hálfleiks.
Salernitana var sterkari aðilinn eftir leikhlé en tókst ekki að gera sigurmark og urðu lokatölurnar 1-1.
Salernitana er með þrjú stig eftir fimm umferðir á nýju tímabili á meðan Frosinone er óvænt með átta stig.