
Orri Þórðarson þjálfari FH var svekktur eftir 4-1 tap sinna stelpna á móti Selfossi í Pepsi-deildinni í kvöld. Selfyssingar komust yfir snemma í leiknum og náðu að sigla þremur stigum heim.
„Þetta 4-1 gefur enganveginn rétta mynd af gangi leiksins af því að leikurinn var bara jafn úti á vellinum. Munurinn liggur í því að við erum að gefa algjör skítamörk á okkur. Við gerðum oft vel í uppspilinu en vorum ekki að ná að tengja nægilega vel á fremsta þriðjungi."
FH-ingar fengu mark á sig snemma í leiknum en Orri telur þó að það hafi ekki riðlað skipulagi leiksins.
„Það riðlar í sjálfu sér ekki skipulaginu en það er aldrei gott að fá á sig mark svona snemma og mér fannst þetta lykta af kæruleysi og samskiptaleysi. Við áttum bara að gera miklu betur."
Uppskeran eftir fjóra leiki hjá FH í Pepsideildinni eru 3 stig og virðist Orri ekkert vera neitt sérstaklega sáttur við það.
„Markmiðið var og er að gera betur en í fyrra. Miðað við þessa stigasöfnun og frammistöðu þá erum við langt frá því. Við tökum einn leik í einu, það er ekkert annað hægt."
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir