
Atli var keyptur til Zulte Waregem í Belgíu síðasta sumar. Liðið vann belgísku B-deildina í vetur. Hann fór reglulega úr axlarlið í vetur og fór í aðgerð til að verða orðinn góður fyrir næsta tímabl.
Vinstri bakvörðurinn Atli Barkarson vann í vetur belgísku B-deildina með Zulte Waregem og mun að öllu óbreyttu spila með liðinu í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.
Atli var keyptur til félagsins frá danska félaginu SönderjyskE síðasta sumar. Hann var í stóru hlutverki á tímabilinu en undir lok þess gekkst hann undir aðgerð vegna axlarmeiðsla. Fótbolti.net ræddi við Húsvíkinginn á dögunum.
Atli var keyptur til félagsins frá danska félaginu SönderjyskE síðasta sumar. Hann var í stóru hlutverki á tímabilinu en undir lok þess gekkst hann undir aðgerð vegna axlarmeiðsla. Fótbolti.net ræddi við Húsvíkinginn á dögunum.
„Þetta kom upp í apríl í fyrra, ég viðbeinsbrotnaði á æfingu hjá SönderjyskE, lenti í samstuði við markmanninn og þurfti að fara í aðgerð. Ég held að út frá því hafi þessi axlarmeiðsl komið upp, þetta hafi ekki bara verið viðbeinið. Þegar ég kom til Zulte Waregem í lok ágúst finn ég að ég var svolítið laus í öxlinni. Ég var ekki búinn að fara úr lið svo ég vissi til, en fann fyrir þessu. Ég lendi svo í því í leik gegn Eupen snemma á tímabilinu að detta úr lið í leik. Ég náði að koma mér í lið sjálfur inn á vellinum og kláraði leikinn. Svo var ég bara teipaður fyrir allar æfingar og alla leiki. Ég er búinn að detta úr lið átta eða níu sinnum á þessu tímabili og þetta er búið að vera smá vesen," sagði Atli.
„Það var ákveðið að ég færi í aðgerð og ég þurfti að þrauka út tímabilið. Ég var að gera æfingar í ræktinni á hverjum degi til að halda þessu við, og beint eftir tímabilið fór ég í aðgerð til að laga þetta. Þetta er svipuð aðgerð og Daníel Leó og Gísli Gotti fóru í fyrir stuttu."
„Endurkomutíminn er um þrír mánuðir, þá verð ég 100% klár. Ég má hlaupa og æfa fyrr, en má ekki fara í snertingu með öxlina við aðra fyrr en í júlí. Frá aðgerð og að fyrsta leik í deild eru akkúrat þrír mánuðir svo þetta passaði nokkuð vel. Ég verð vonandi klár í 2. eða 3. umferð, draumurinn væri í 1. umferð en það er kannski óraunhæft."
„Þetta er mjög vont, ég er búinn að vera mikið aumur í öxlinni. Þegar maður dettur úr lið er maður aumur í viku eftir það. Maður þarf að passa sig vel og ég er búinn að vera mjög samviskusamur og gera mínar æfingar. Ég datt úr lið tvisvar sinnum á meðan ég var sofandi; setti hendina yfir höfuðið og vaknaði með öxlina úr lið. Þetta eru mjög leiðinleg og erfið meiðsli, hægt að spila í gegnum þetta, en þetta hefur áhrif á þig andlega. Maður er ekkert alveg 100% í öll návígi því maður er aðeins að passa sig."
„Ef ég var nýbúinn að detta úr lið þá kom svolítil uppgjöf þegar þetta gerðist strax aftur, maður vissi hvernig næsta vika yrði, eymsli og leiðindi. Ég hef náð að koma mér sjálfur aftur í lið, þetta er vont, en ekki sársauki upp á tíu, ekki það versta sem maður lendir í. Það var fínt að komast í aðgerð eftir níu skipti," sagði Atli.
Var þetta hluti af því sem var skoðað þegar þú fórst til Zulte Waregem?
„Ég var skoðaður út af viðbeininu, er með plötu þar eftir að ég fór í aðgerðina í fyrra. Eftir á að hyggja hef ég aðeins pælt í þessu, það hefði líklega átt að skoða öxlina lóka því það var mikið högg á öxlina þegar ég viðbeinsbrotnaði, og mögulega datt ég í fyrsta sinn úr lið þá án þess að ég hafi vitað það, og þess vegna var ég kannski svona laus í öxlinni. En það var ekkert skoðað," sagði Atli.
Viðtalið við hann var talsvert lengra, ekki eingöngu talað um axlarmeiðsli. Meira úr viðtalinu verður birt á morgun.
Athugasemdir