
Klukkan 18:00 tekur KR á móti ÍBV á AVIS-vellinum í Laugardal í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Liðin eru að mætast í annað sinn á skömmum tíma en þau mættust síðast á laugardaginn í Bestu deildinni.
Fótbolti.net ræddi við Þorlák Árnason, þjálfara ÍBV, í gærkvöldi um komandi leik.
Fótbolti.net ræddi við Þorlák Árnason, þjálfara ÍBV, í gærkvöldi um komandi leik.
Lestu um leikinn: KR 0 - 0 ÍBV
Arnar Breki Gunnarsson, Mattias Edeland og Hermann Þór Ragnarsson voru ekki í leikmannahópnum á laugardaginn. Hvernig er staðan á þeim?
„Ég á von á því að einn eða tveir af þeim verði í hóp á morgun, þeir eru að koma til og ég á ekki von á öðru. Við þurfum að taka stöðuna á þeim, en ég reikna með því að þeir séu að koma til baka, annað hvort á morgun eða á sunnudaginn (þegar KA kemur í heimsókn til Eyja í deildinni). Einhverjir væntanlega í hópnum (í dag) og einhverjir á sunnudaginn, þannig lítur þetta út allavega núna," segir Láki.
„Já, það er möguleiki á því að einhver komi beint í byrjunarliðið, við vorum að fá staðfestingu frá sjúkraþjálfara eftir æfinguna áðan. Við erum ekki með nein alvarleg meiðsli núna, bara einhver stífleiki í mönnum, það skýrist með þá (í dag); hvort þeir taki fullan þátt eða bara hluta."
Hvað þarf ÍBV að breyta milli leikja? KR vann leikinn á laugardaginn 4-1 en ÍBV fékk tækifæri til að jafna í 2-2 áður en KR kláraði leikinn.
„Það er aldrei gott að fá á sig fjögur mörk í fótboltaleik. Það er eitthvað sem við þurfum klárlega að skoða. Við megum ekki vera svona opnir. Við ákváðum í hálfleiknum á laugardaginn að hápressa KR og fengum töluvert af góðum tækifærum til að jafna metin, en svo er ókosturinn við að taka áhættur, við fengum á okkur mark á móti. Ég var rosalega stoltur af hugrekkinu og hvernig við erum að spila sóknarlega, erum að skapa mikið af færum í nær öllum leikjum, en við þurfum að bæta varnarleikinn frá síðasta leik."
Hjörvar Daði Arnarsson varði mark ÍBV í leiknum gegn Víkingi í 32-liða úrslitunum.
„Við erum með tvo góða markmenn, þegar jón Kristinn (Elíasson) fer (í Ólafsvík) var alveg ljóst að við þyrftum að ná í markmann. Hjörvar var töluvert frá í vetur vegna meiðsla, en er ofboðslega flottur markmaður. Við erum ánægðir með Marcel (Zapytowski, sem hefur staðið vaktina í deildinni) og sama með Hjörvar. Maður þarf að vera með tvo trausta markmenn í þessari deild og við teljum okkur vera með það."
Er Hjörvar bikarmarkmaður ÍBV?
„Hjörvar er að fara byrja, það er alveg ljóst. Okkur fannst það vera rétta tímasetning, vorum kannski ekki að spá í að þetta væri bikarleikur, okkur finnst tími á að hann fái tækifæri aftur,"
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, hefur reglulega talað um að brenna skip, en Eyjamenn munu fara siglandi með Herjólfi á morgun. Láki ætlar sér áfram í bikarnum.
„Stefnan okkar er að komast áfram í bikarkeppninni, það er bara markmiðið hjá okkur. Ég á von á því sama frá KR og í deildinni. Við hleyptum þessu svolítið upp og dönsuðum við KR þegar við fórum í að hápressa, áhætta sem við töldum að við þyrftum að taka til að verða betra lið í framtíðinni. Við höfum verið sókndjarfir fyrir utan kannski fyrsta leikinn. Við þurfum bara að finna jafnvægið, þurfum líka að vernda markið betur, það er alveg ljóst. Við búumst við því sama frá KR og svipað frá okkur líka. Eins og ég hef sagt áður: þegar þú ert að spila við KR þá þarftu að skora nokkur mörk til að vinna þá miðað við tölfræðina."
Ein klisja að lokum, bikarinn er auðvitað stysta leiðin í Evrópu.
„Það eru allir meðvitaðir um það. Markmannsþjálfarinn okkar, Kristian (Barbuscak), var einmitt mjög hissa á því hversu fáa leiki þyrfti að vinna til að komast í Evrópukeppni í gegnum bikarinn," sagði Láki léttur að lokum.
Athugasemdir