Delap nálgast Man Utd - Rift við Laporte - Arsenal og Liverpool berjast um Huijsen
   mið 14. maí 2025 22:55
Brynjar Ingi Erluson
Mjólkurbikarinn: Stjarnan rétt skreið áfram eftir mikla dramatík á Akranesi
Árni Snær Ólafsson reyndist hetja Stjörnunnar
Árni Snær Ólafsson reyndist hetja Stjörnunnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hektor Bergmann Garðasson (t.h.) skoraði fyrir Kára í leiknum
Hektor Bergmann Garðasson (t.h.) skoraði fyrir Kára í leiknum
Mynd: Kári
Stjörnumenn eru komnir áfram
Stjörnumenn eru komnir áfram
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kári 2 - 2 Stjarnan (1-4 eftir vítakeppni)
0-1 Benedikt V. Warén ('41 )
1-1 Hektor Bergmann Garðarsson ('70 )
1-2 Adolf Daði Birgisson ('105 )
2-2 Mikael Hrafn Helgason ('117 )
Lestu um leikinn

Stjarnan varð síðasta lið kvöldsins til að tryggja sig inn í 8-liða úrslitin en liðið þurfti svo sannarlega að hafa fyrir hlutunum er það heimsótti 2. deildarlið Kára upp á Akranes.

Stjörnumenn áttu í fullu fangi með Kára og var ekki að sjá á liðunum að það væru heilar tvær deildir á milli þeirra.

Gestirnir úr Garðabæ skoruðu eina mark fyrri hálfleiks er Benedikt Warén skoraði með föstu skoti í fjærhornið rétt undir lok hálfleiksins og nokkuð sanngjörn staða þó Káramenn hafi átti fína kafla.

Strax í upphafi síðari hálfleiks fengu Káramenn dauðafæri til að jafna metin. Sigurður Hrannar Þorsteinsson átti skot sem Árni Snær Ólafsson varði út á Matthías Daða Gunnarsson en aftur varði Árni.

Á hinum endanum átti Benedikt hörkuskot sem Kristján Hjörvar Sigurkarlsson varði í stöng.

Hálftíma fyrir leikslok var Sigurður Hrannar hársbreidd frá jöfnunarmarki. Matthías Daði klobbaði leikmann Stjörnunnar áður en hann kom boltanum á Sigurð en aftur varði Árni í markinu.

Heimamenn gáfust ekki upp og þegar komið var á 70. mínútu jöfnuðu þeir eftir frábæra innkomu varamannana. Hektor Bergmann Garðarsson og Þór Llorens Þórðarson komu inn á og var það Þór sem lagði upp fyrir Hektor og ætlaði allt að tryllast í Akraneshöllinni.

Stjörnumenn höfðu engan áhuga á að fara í framlengingu og reyndu eins og þeir gátu að klára þetta í lokin. Sindri Þór Ingimarsson áttu hörkuskot í slá og þá reyndu þeir Baldur Logi Guðlaugsson og Alex Þór Hauksson báðir að skjóta þeim bláu áfram en án árangurs.

Framlengingin bauð upp á enn meiri dramatík. Stjörnumenn tóku aftur forystuna í leiknum. Adolf Daði Birgisson gerði það með algerlega glæstu skoti í samskeytin og það rétt fyrir lok fyrri hluta framlengingarinnar.

Stjörnumenn voru ekki langt frá því að gera út um leikinn á 115. mínútu. Kristján Hjörvar, markvörður Kára, fékk pressu frá Örvari Eggertssyni sem náði að komast fyrir boltann, en Kristján hafði heppnina með sér og náði að handsama hann að lokum.

Tveimur mínútum síðar jöfnuðu Káramenn í annað sinn í leiknum eftir stórkostlega skyndisókn. Þeir spiluðu vel sín á milli áður en Börkur Bernharð Sigmundsson fékk boltann. Hann kom honum á Mikael Hrafn Helgason sem skaut boltanum í varnarmann og í markið.

Á lokasekúndunum fengu Káramenn aukaspyrnu til þess að fullkomna dramatíska endurkomu. Þór Llorens mundaði skotfótinn en setti boltann yfir markið.

Vítaspyrnukeppni var það og þar var það Skagamaðurinn Árni Snær Ólafsson sem reyndist hetja Stjörnunnar. Hann varði tvö víti og þá skoruðu Stjörnumenn úr öllum fjórum vítaspyrnum sínum og tryggðu sér um leið sæti í 8-liða úrslitum.

Vítakeppnin:
0-1 Emil Atlason
1-1 Þór Llorens Þórðarson
1-2 Jóhann Árni Gunnarsson
1-2 Árni ver frá Mikael
1-3 Daníel Finns Matthíasson
1-3 Árni ver frá Hektori
1-4 Baldur Logi Guðlaugsson


Athugasemdir
banner