Það er einn leikur á dagskrá í ítalska boltanum í kvöld þegar AC Milan og Bologna eigast við í úrslitaleik bikarsins.
Liðin eigast við á Ólympíuleikvanginum í Róm og fær sigurvegari leiksins þátttökurétt í Evrópudeildina á næstu leiktíð, auk þess að spila í fjögurra liða ítölskum Ofurbikar.
Þetta er því gríðarlega mikilvægur leikur fyrir bæði lið sem eru í harðri baráttu um Evrópusæti þegar tvær umferðir eru eftir af ítalska deildartímabilinu.
Bologna er þar tveimur stigum fyrir ofan Milan, einu stigi frá sæti í Sambandsdeildinni. Það verður því ekkert gefið eftir í úrslitaleik kvöldsins.
Til gamans má geta að liðin áttust við í ítölsku deildinni um helgina og hafði Milan betur á heimavelli. Lokatölur 3-1 eftir að Bologna hafði tekið forystuna á 49. mínútu.
Santi Giménez og Christian Pulisic leiddu endurkomu heimamanna í Mílanó.
Leikur kvöldsins
19:00 AC Milan - Bologna
Athugasemdir