Delap nálgast Man Utd - Rift við Laporte - Arsenal og Liverpool berjast um Huijsen
   mið 14. maí 2025 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Ancelotti: Xabi Alonso þarf engin ráð frá mér
Mynd: EPA
Ítalska goðsögnin Carlo Ancelotti flytur frá Madríd eftir tvær vikur til að taka við stjórn á brasilíska landsliðinu.

Ancelotti hélt fréttamannafund í gær og fór víðan völl. Hann talaði meðal annars um Xabi Alonso, arftaka sinn hjá Real Madrid.

„Xabi Alonso þarf engin ráð frá mér. Hann er frábær þjálfari sem hefur allt í vopnabúrinu til að verða topp, topp þjálfari," sagði Ancelotti.

Alonso hóf þjálfaraferilinn sinn með Bayer Leverkusen fyrir tæplega þremur árum síðan, eftir að hafa stýrt varaliði Real Sociedad í nokkur ár þar á undan. Hann náði ótrúlegum árangri með Leverkusen og vakti þannig áhuga allra stærstu félagsliða Evrópu.

Ancelotti segist ekki bera neinn kala til Real Madrid þrátt fyrir að félagið sé að bola honum út með eitt ár eftir af samningi, án starfslokagreiðslu.

„Ég verð stuðningsmaður Real Madrid um ókomna tíð. Ég bjóst aldrei við að þjálfa þetta lið í 6 ár. Ég stend í þakkarskuld við Real Madrid."
Athugasemdir
banner