Allar líkur eru á því að Kyle Walker muni yfirgefa Manchester City í sumar þrátt fyrir að eiga eitt ár eftir af samningi sínum við félagið.
Walker hefur verið að gera flotta hluti á láni hjá AC Milan í ítalska boltanum en ekki er ljóst hvort félagið sé reiðubúið til að kaupa bakvörðinn þaulreynda.
Walker, sem verður 35 ára eftir tvær vikur, telur sig eiga nóg eftir á tankinum og er ennþá mikilvægur partur af enska landsliðinu undir stjórn Thomas Tuchel.
Man City er því í leit af nýjum bakverði og eru fjórir menn á óskalistanum. Tino Livramento, hægri bakvörður Newcastle United, er sagður vera efstur á listanum.
Livramento er 22 ára gamall og spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir England í fyrra, eftir að hafa verið lykilmaður upp yngri landsliðin.
Hann er mikilvægur hlekkur í sterkri varnarlínu Newcastle eftir að félagið keypti hann frá Southampton fyrir tveimur árum síðan.
Livramento kostaði um 40 milljónir punda þegar hann var keyptur til Newcastle og er líklegt að félagið sætti sig ekki við minna en 60 milljónir til að selja hann í sumar.
Livramento á þrjú ár eftir af samningi sínum við Newcastle.
Athugasemdir