Aron Einar Gunnarsson og félagar hans í Al Gharafa eru komnir áfram í undanúrslit katarska emírbikarsins eftir að hafa unnið Al Sadd eftir vítakeppni í dag.
Al Sadd er ríkjandi meistari í keppninni og þegar búið að vinna stjörnudeildina í Katar á meðan Al Gharafa hafnaði í þriðja sæti.
Aron Einar var í byrjunarliði Al Gharafa í dag og lék allan leikinn í þriggja manna varnarlínu.
Al Gharafa komst í tveggja marka forystu í gegnum Joselu og Yacine Brahimi, en Aron varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir. Al Sadd fékk aukaspyrnu sem fór af varnarmanni og skaust síðan af bringunni á Aroni og í netið.
Í uppbótartíma jafnaði Al Sadd og náði þannig að knýja fram framlengingu, en ekkert mark var skorað í henni og því þurfti vítaspyrnukeppni til að skera úr um hvort liðið færi áfram í undanúrslitin.
Aron Einar var öruggur á punktinum eins og fjórir aðrir liðsfélagar hans. Al Gharafa vann vítakeppnina 5-4 og er því komið áfram.
Al Gharafa mætir Al Ahli í undanúrslitum á sunnudag og fer síðan úrslitaleikurinn fram 24. maí.
??? ????? ??? ??????? ????? ?????? ????????#???_?????? pic.twitter.com/4LjNbCODBw
— AL GHARAFA SC | ???? ??????? (@ALGHARAFACLUB) May 14, 2025
Athugasemdir