Frimpong orðaður við Liverpool - City reynir við Reijnders - Man Utd ætlar ekki að losa sig við Amorim
   þri 13. maí 2025 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Halldór Snær um frasann fræga: Ég skildi ekkert í þessu
Halldór Snær og Óskar Hrafn.
Halldór Snær og Óskar Hrafn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Snær og Júlíus Mar.
Halldór Snær og Júlíus Mar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR-ingar eru enn taplausir í Bestu deildinni.
KR-ingar eru enn taplausir í Bestu deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frægasti frasinn í íslenska fótboltanum þessa stundina er þegar talað er um að brenna skipin.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, hefur notað þennan frasa mikið að undanförnu og fór vel yfir hann í skemmtilegu viðtali hér á Fótbolta.net á dögunum.

Óskar var þá spurður af hverju lið hans hefði ekki pakkað í vörn í stöðunni 3-2 gegn Breiðabliki þegar komið var fram í uppbótartíma. Blikar jöfnuðu í blálokin og KR var enn á þeim tímapunkti að spila með háa varnarlínu.

„Vegna þess að það er bara það sem við erum. Þar liggur sjálfsmynd okkar, að sækja. Ég hef vísað í Hernán Cortés þegar hann brenndi skip 1519 fyrir utan strendur Mexíkó. Menn höfðu ekkert val, þeir þurftu að fara upp á land og sigra Asteka í mikilli undirtölu. Það gildir það sama um þetta. Ég talaði við konuna mína í síðustu viku og hún spurði þar sem við vorum að fara að mæta Íslandsmeisturunum á þeirra heimavelli hvort við ætluðum ekki að fara varkárt inn í leikinn? Ég leit aftur fyrir mig og spurði hana hvort hún sæi einhver skip. Hún sá engin skip. Þá var því svarað, við erum búnir að brenna skipin. Við munum ekki fara niður nema einhver þrýsti okkur niður af krafti eða gæðum sem gerðist í einhverjar þrjár eða fjórar mínútur undir lokin í dag," sagði Óskar eins og frægt er orðið.

Halldór Snær Georgsson og Júlíus Mar Júlíusson, sem gengu í raðir KR frá Fjölni í vetur, voru í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á dögunum þar sem þeir voru spurðir út í þennan frasa.

„Hann sagði þetta einhvern tímann áður en hann minntist mest á þetta fyrir Blikaleikinn," sagði Halldór Snær en klefinn hjá KR hafði gaman að þessu. „Hann sagði þetta með konuna sína, að hann hafi litið um öxl og séð engin skip."

„Ég get alveg verið hreinskilinn að ég skildi ekkert í þessu, ég verð nú bara að segja það. Ég fór bara að skilja það fyrir tveimur eða þremur dögum hvað þetta þýddi," sagði Halldór Snær léttur en eitthvað hefur ræðan nú kveikt í KR-ingum.

Óskar tók við KR í fyrra en Halldór og Júlíus eru á sínu fyrsta tímabili með honum.

„Hann hefur drifið mann áfram frá því maður kom í félagið á upphefjandi hátt. Hann er alls ekki að brjóta neinn niður. Hann er mjög fastur á sínu og góður í mannlegum samskiptum sem er mikilvægur kostur að hafa þegar þú ert þjálfari," sagði Júlíus Mar.

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Rautt í Keflavík og KR dúett úr Grafarvogi
Athugasemdir
banner