Delap nálgast Man Utd - Rift við Laporte - Arsenal og Liverpool berjast um Huijsen
   mið 14. maí 2025 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
„Verður refsað ef þær spila svona gegn Barcelona"
Kvenaboltinn
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Arsenal mætir Barcelona í úrslitaleik Meistaradeildar kvenna laugardaginn 24. maí og ríkir mikil eftirvænting.

Barcelona virðist vera með langbesta liðið í fótboltaheiminum í dag en þær gjörsamlega völtuðu yfir alla andstæðinga sína í Meistaradeildinni á tímabilinu nema einn.

Börsungar töpuðu 2-0 gegn Manchester City í fyrstu umferð riðlakeppninnar, en þær hafa unnið alla leikina síðan þá. Þær sigruðu 3-0 á heimavelli gegn Man City í lokaumferð riðlakeppninnar í desember og rúlluðu svo yfir bæði Wolfsburg og Chelsea í útsláttarkeppninni.

Barcelona vann samanlagt 10-2 gegn Wolfsburg og 8-2 gegn Chelsea eftir stórsigra bæði heima og úti.

Liðið trónir þá á toppi spænsku deildarinnar með sex stiga forystu á Real Madrid fyrir lokaumferðina. Barca er með 81 stig eftir 29 umferðir, en til samanburðar þá endaði Arsenal í öðru sæti á Englandi - langt á eftir toppliði Chelsea með 48 stig úr 22 leikjum.

Arsenal liðið er þó gríðarlega sterkt og getur sigrað sterka andstæðinga á sínum degi. Mariona Caldentey er besti leikmaður liðsins og var hún valin sem leikmaður ársins í kosningu áhorfenda í ensku ofurdeildinni.

Caldentey skoraði níu mörk og gaf fimm stoðsendingar á ofurdeildartímabilinu en hún lék fyrir Barcelona áður en hún skipti yfir til Arsenal.

Arsenal tók á móti Manchester United í lokaumferð ofurdeildartímabilsins á dögunum. Liðin áttust þar við í úrslitaleik um annað sæti deildarinnar og hafði Arsenal betur eftir sjö marka leik, lokatölur 4-3.

„Arsenal átti að vera búið að jarða þennan leik í 4-1," sagði Rachel Brown-Finnish, fyrrum landsliðsmarkvörður Englands og núverandi fótboltasérfræðingur hjá BBC, eftir sigur Arsenal gegn Man Utd.

„Þær vita vonandi að ef þær spila svona gegn Barcelona þá verður þeim refsað fyrir það."
Athugasemdir