Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 24. maí 2022 21:31
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Arna Sif skaut Val á toppinn - Sandra varði víti undir lokin
Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði gott skallamark
Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði gott skallamark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra Sigurðardóttir varði víti undir lok leiksins
Sandra Sigurðardóttir varði víti undir lok leiksins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 0 - 1 Valur
0-1 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('55 )
0-1 Melina Ayres ('83 , misnotað víti)
Lestu um leikinn

Valur tók toppsæti Bestu deildar kvenna í kvöld er liðið lagði Breiðablik 1-0 á Kópavogsvelli. Arna Sif Ásgrímsdóttir gerði eina mark leiksins í byrjun síðari hálfleiks en Blikar fengu gullið tækifæri til að jafna sjö mínútum fyrir leikslok.

Blikar gerðu árásir á Val strax í upphafi leiksins. Melina Ayres kom boltanum í netið á 5. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Sandra Sigurðardóttir hafði varið skot í slá og þaðan fór boltinn til Melinu sem kom honum í netið en hún var fyrir innan.

Sandra hélt Val í leiknum fyrstu mínúturnar og áttu nokkrar góðar vörslur. Bæði lið fengu færin til að skora í fyrri hálfleiknum en þurftu að sætta sig við að fara inn í markalausan hálfleik.

Þegar tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleiks braut Arna Sif Ásgrímsdóttir ísinn. Ásdís Karen Halldórsdóttir með hornspyrnu inn í teig sem Arna stangaði í netið. Sterkt mark.

Fimm mínútum síðar vildu Valskonur víti er Elísa Viðarsdóttir átti fyrirgjöf sem fór í höndina á Ástu Eir Árnadóttur. Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, var ekki sammála og lét leikinn halda áfram.

Blikar komu sér í dauðafæri tuttugu mínútum fyrir leikslok. Hildur Antonsdóttir átti sendingu á Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur en Sandra varði vel frá henni.

Þegar átta mínútur lifðu leiks fengu Blikar vítaspyrnu og fór Melina á punktinn. Sandra sá við henni með góðri vörslu og var Melinu svo skipt útaf í kjölfarið.

Dýrkeypt hjá Melinu og Valur fer heim með öll stigin. Sandra frábær í rammanum í kvöld og átti risastóran þátt í að tryggja þessi stig. Valur er á toppnum með 15 stig, sex stigum meira en Blikar sem eru í 6. sæti.
Athugasemdir
banner
banner