Jón Daði er 32 ára framherji sem hefur skorað 4 mörk í 64 landsleikjum. Hann var síðast í hópnum í mars 2022.
Jón Daði hefur verið á Englandi síðan 2016. Fyrst hjá Wolves, næst hjá Reading, svo Milwall, Bolton, Wrexham og nú Burton.
Jón Daði Böðvarsson gekk í raðir enska félagsins Burton Albion fyrr í þessum félagaskiptaglugga en hann kom frá Wrexham þar sem samningi hans var að ljúka. Burton er í 23. sæti ensku C-deildarinnar og þarf heldur betur að fara safna stigum ef liðið ætlar að forðast fall úr deildinni.
Jón Daði hefur spilað tvo leiki með liðinu; kom inn á um síðustu helgi og var svo í byrjunarliðinu og skoraði mark í sigri á Wigan á þriðjudag. Þriðji leikur hans með liðinu verður gegn Rotherham klukkan 15:00 í dag. Jón Daði ræddi við Fótbolta.net í gær.
Jón Daði hefur spilað tvo leiki með liðinu; kom inn á um síðustu helgi og var svo í byrjunarliðinu og skoraði mark í sigri á Wigan á þriðjudag. Þriðji leikur hans með liðinu verður gegn Rotherham klukkan 15:00 í dag. Jón Daði ræddi við Fótbolta.net í gær.
Búið að ganga eins og í sögu
„Fyrstu dagarnir hjá Burton hafa verið fínir, liðið er í basli í deildinni og ég kem hingað aðallega til að fá spila aftur og vonandi til að hjálpa liðinu ef ég get til þess að safna stigum á töfluna. Hingað til hefur þetta gengið betur en ég átti von á. Það er gott að vera kominn fyrir alvöru inn í myndina aftur," segir Jón Daði sem hefur ekki spilað mikið síðustu misseri. Honum er ætlað stórt hlutverk hjá Burton sem er ástæðan fyrir því að hann skrifaði undir hjá félaginu.
„Þetta gerist allt svo hratt. Ég var hjá Wrexham, samningnum mínum var að ljúka þar og ég var í hreinskilni ekki alveg viss hvað ég vildi gera. Ég vissi af áhuga frá Burton, alveg í hreinskilni og með fullri virðingu, voru fyrstu viðbrögð þannig að ég vissi ekki hvort ég vildi stökkva á þetta. Ég ákvað svo að taka slaginn, heyrði í fólkinu hjá félaginu, þjálfaranum og fleirum og það sannfærði mig um að koma. Ég hugsaði hvað væri það versta sem gæti gerst. Ég kem út tímabilið og það eru meiri líkur en minni á að fá mínútur sem mig hefur vantað, og kannski sjálfstraust með því sem fylgir því að spila reglulega."
„Allt í einu var ég kominn í byrjunarliðið gegn Wigan og við vinnum frábæran 2-1 sigur og ég skora í fyrsta byrjunarliðsleiknum. Þetta er bara búið að ganga eins og í sögu og ég er að ná aðlagast ansi hratt; félagið hefur verið mjög öflugt í að hjálpa okkur fjölskyldunni að koma okkur vel fyrir. Ég er virkilega ánægður að hafa stokkið á þetta."
Hefur góða tilfinningu með bjartsýnina að vopni
Fyrsti byrjunarliðsleikurinn, fyrsta markið og fyrsti sigurinn. Handriðið hjá nýju félagið byrjar ansi vel.
„Sem framherji, sérstaklega þar sem þetta hefur verið langur tími frá því að ég var reglulega að fá mínútur, þá viltu skora og stimpla þig inn. Ég bjóst ekki við því að ég myndi byrja hvern einasta leik hjá Wrexham en ég hélt að ég hefði átt að spila aðeins meira en ég gerði. Wrexham má samt eiga það að þeir komu mér aftur í gang fótboltalega séð. Ég var búinn að vera án félags í 4-5 mánuði. Svo kem ég í Burton og það voru smá efasemdir í mér varðandi stöðuna á mér."
„Ég er búinn að standa mig betur en ég átti von á og fann það sérstaklega gegn Wigan. Auðvitað á liðið ennþá langt í land með að ná öruggu sæti en ég hef bara góða tilfinningu fyrir þessu, maður á að vera bjartsýnn í svona aðstæðum. Félagið hefur engu að tapa úr þessu, það eru ekki margir að búast við miklu af okkur. Vonandi næ ég, ásamt kannski tveimur öðrum sem eru líka nýkomnir, að styrja liðið aðeins og hjálpa okkur upp töfluna."
Fjallganga framundan
Finnur þú að fólk hefur trú á þessu?
„Ég finn það alveg á strákunum. Ef horft er í úrslitin í síðustu leikjum þá hefur liðið ekki grúttapað neinum leik. Liðin sem eru best og vinna alla leiki, það getur orðið að hálfgerðum vana, það er líka hátt á hinn bóginn, því það getur líka orðið að vana að tapa leikjum. Burton hefur verið inn í þessum leikjum en trúin getur aðeins farið þegar töpin safnast saman. Mér fannst í síðasta leik við finna að við séum alveg þarna, þetta snýst bara um að komast á smá skrið. Þetta verður fjallganga, 19 leikir eftir og við þurfum held ég að vinna 10-11 leiki. Það er mikil áskorun, en það er allt hægt og maður hefur trú."
Var eiginlega búinn að hafna tilboði Burton
„Ég var nánast búinn að neita samningstilboðinu, sagði það við Agga umboðsmann að ég vissi ekki hvort ég myndi treysta mér í þetta. Það var fullur skilningur á því, en vildu samt fá að heyra í mér einu sinni enn. Það hjálpaði mér að taka endanlega ákvörðun. Þjálfarinn sagði að honum vantaði mann til að hafa frammi og gæti komið liðinu ofar. Þeir hafa trú á því að ég geti það. Það sem heillaði mig mest var að fá mínútur. Þegar allt kemur til alls þá er mér, eins og er, alveg sama hvar ég fæ mínútur og er virkilega ánægður með að hafa fengið þetta tækifæri og að hafa stokkið á þetta."
Var orðinn hálfbitur út í atvinnumannaumhverfið
Burton er Íslendingafélag að því leyti að í eigendahópi félagsins eru nokkrir Íslendingar. Þar á meðal er Ólafur Páll Snorrason, fyrrum leikmaður FH og fleiri liða.
„Ég talaði við Óla eftir að ég var búinn að skrifa undir. Hann sagði að hann væri mjög ánægður með þessa ákvörðun mína og að ég myndi örugglega ekki sjá eftir henni. Hann sagði líka að hann myndi hjálpa mér og fjölskyldunni eins mikið og hann getur til að koma okkur fyrir, ef það væri eitthvað þá væri hann alltaf til staðar. Hann tengir við allt sem maður segir sem fyrrverandi fótboltamaður sjálfur, eins og með mennskuna og annað."
„Ég var orðinn hálfbitur út í þetta umhverfi einhvern veginn, þetta er umhverfi sem er ekki fyrir alla og stundum kemur það mér hálfpartinn á óvart hversu lengi ég hef enst í þessu. Maður hefur átt fínar samræður við Óla um fótboltann og líka lífið og tilveruna, það er fínt að tala við hann. Ég er mjög ánægður með að hafa komið hingað, fá að spila reglulega, finna mig aftur og þetta hefur byrjað mjög vel."
Jón Daði hefur áður sagt frá eriðleikum sínum hjá Millwall á sínum tíma og er opinn með að það sé ekkert alltaf dans á rósum að vera atvinnumaður í fótbolta. Hann var svo ekki fullkomlega sáttur með tíma sinn hjá Wrexham en þó þakklátur félaginu fyrir að hafa komið sér í gang.
Frábært að ákveðnu leyti en líka hálfgerð vonbrigði
Jón Daði skrifaði undir þriggja mánaða samning við Wrexham í vetur. Á þeim tímapunkti, var hann nálægt því að fara finna sér lið heima á Íslandi?
„Hugurinn minn var svolítið farinn þangað að koma heim og vera þar. Þegar leið á sumargluggann og ég var alla þessa mánuði samningslaus þá var rosalega lítið að frétta, þrátt fyrir að ég gæti skrifað undir hvar sem er verandi félagslaus. Flest félög þurfa ekki á styrkingu að halda eftir að glugginn lokar því það er búið að ná í allt sem þarf. Hugsunin var að halda mér í standi fram í janúar, klára janúargluggann og sjá hvort ég fengi eitthvað spennandi. Ef það hefði ekki gerst þá hefði ég mögulega horft á eitthvað á Íslandi."
„Svo kom þetta símtal frá Phil Parkinson í Wrexham og hann sannfærði mig um að koma í þetta gigg hjá þeim, þriggja mánaða samning. Ég hafði engu að tapa og hugsaði að þetta væri flott verkefni, Wrexham er félag sem er á hraðri uppleið og gaman að fá að upplifa það ásamt því að koma sér í stand og mögulega spila eitthvað. Þetta var frábær tími að ákveðnu leyti en líka hálfgerð vonbrigði því mér fannst ég eiga skilið fleiri mínútur en ég fékk. Framherjarnir voru allavega ekki mikið að skora og ég hefði haldið að ég hefði átt að fá meiri séns þar. En svona er fótboltinn, þeir voru að vinna leiki og ég skil alveg ákvörðun þjálfaranna að vera ekki að breyta miklu."
Vantar kannski aðeins upp á mannlega þáttinn
Wrexham er í eigu Hollywood tvíeykisins Ryan Reynolds og Rob McElhenney. Hvernig er lífið utan vallar í Wrexham?
„Þetta er allt í lagi. Þetta er frábær 'standard' fótboltalega séð og gæðin fín á æfingum. Það er fínt að búa þarna en við bjuggum reyndar nálægt Chester þar sem fjölskyldunni leið mjög vel."
„Mín skoðun er sú að klúbburinn er á hraðri uppleið og það sem oft getur gerst er að mannlegi þátturinn getur aðeins gleymst. Mér fannst að stjórnunin hefði getað verið betri, ég var oft utan hóps og það kom varla útskýring af hverju. Það voru alls konar hlutir sem maður var ekki alveg sammála, en svona er mismunandi eftir félögum. Með félag á þessu kalíberi þá hefði maður haldið að þetta væri betra."
„Ég er engu að síður mjög þakklátur Wrexham fyrir að hafa gefið mér tækifæri og komið mér aftur af stað. Ég hefði örugglega ekki fengið Burton eða möguleikann á öðrum liðum ef ég hefði ekki verið búinn að koma mér af stað aftur. Ég horfi til Wrexham með þakklæti, þó að þetta hefði getað verið betra."
Óskrifað blað
Hvernig horfir framtíðin við Jóni Daða?
„Draumurinn er að reyna hjálpa þessu félagi að halda sér í deildinni, það yrði rosalegt afrek ef horft er í hvar liðið er núna í deildinni. Ég er ekki viss hvort ég horfi í það að fá annan samning hérna úti, það bara kemur í ljós."
„Ég set bara hausinn niður núna, legg hart að mér og reyni að spila eins vel og ég get út tímabilið. Svo met ég stöðuna, hvað ég vil gera. Vil ég koma heim? Vil ég halda áfram hérna úti? Það er alltaf sagt að maður eigi að halda sér erlendis eins lengi og maður getur, en ég er ekki viss um að ég sé endilega sammála því að ákveðnu leyti. Ég held að þetta fari bara eftir einstaklingnum og sýn hans, hvað er nóg fyrir þig og hvað viltu ná að gera. Þetta er bara smá óskrifað blað á þessum tímapunkti, mun allt koma í ljós."
Yrði draumur að fá símtalið frá Arnari
Jón Daði hefur ekki verið í kringum landsliðið síðustu ár en breiddin í fremstu línu gæti alveg verið meiri. Orri Steinn Óskarsson og Andri Lucas Guðjohnsen hafa unnið sér inn fast sæti í hópnum en svo hefur verið nokkuð opið hver sé þriðji framherjinn í hópnum, ef slíkur er þá yfir höfuð valinn í fjarveru Alberts Guðmundssonar.
Er draumurinn að Arnar Gunnlaugsson taki símtalið ef þú heldur áfram að standa þig með Burton?
„Já, klárlega. Landsliðið hefur alltaf verið ákveðin ástríða hjá mér. Ég var ekkert mikið í myndinni hjá Åge og auðvitað vil ég vera nær landsliðinu, þykir vænt um það umhverfi. Ég geri mér samt líka alveg grein fyrir því að það eru oft aðrir sem koma í staðinn."
„En ég trúi því alveg ennþá að ég geti kannski bætt við annarri og öðruvísi dýnamík frammi í landsliðinu, hjálpað til og miðlað minni reynslu til ungra leikmanna. Landsliðið er klárlega eitthvað sem er í minni augsýn og ég myndi glaður taka símtalinu ef Arnar myndi hringja. Það yrði bara skemmtilegur glaðningur ef það myndi gerast, en ef ekki, þá er það bara allt gott og blessað."
Hvernig finnst þér að sjá Orra og Andra spila saman frammi?
„Mér finnst það geggjað spennandi, finnst þeir vega hvorn annan upp, eru með mismunandi styrkleika. Orri er ungur ennþá og á fullt eftir, held að hann verði bara betri með árum sem er drullu spennandi. Það sýnir bara hversu langt hann er kominn nú þegar. Hann og Andri hafa verið frábærir saman. Það eru spennandi tímar í landsliðinu, ný kynslóð. Með þessari ráðningu að fá Arnar inn, þá er ég mjög bjartsýnn á næstu árin hjá landsliðinu, mér finnst hafa verið mikill stígandi í þessu undanfarið. Þetta var smá bras en núna er komið meira jafnvægi í þetta og þetta er nánast þannig að það er ekkert sem getur stoppað þetta lið."
John eða Bod
Að lokum, ertu kallaður Iceman eða John á æfingum?
„Ég er mjög oft spurður hvað eigi að kalla mig. Ertu Daddy? Ertu Bod? Ég veit aldrei hvað ég á að láta kalla mig. Ég hendi oftast bara í John, þá festist það bara. Ég er annað hvort kallaður John eða Bod," segir Jón Daði.
Stöðutaflan
England
1. deild - karlar
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
1 | Birmingham | 25 | 17 | 6 | 2 | 43 | 18 | +25 | 57 |
2 | Wycombe | 27 | 16 | 7 | 4 | 52 | 28 | +24 | 55 |
3 | Wrexham | 27 | 15 | 7 | 5 | 39 | 21 | +18 | 52 |
4 | Huddersfield | 26 | 14 | 6 | 6 | 39 | 22 | +17 | 48 |
5 | Stockport | 27 | 12 | 8 | 7 | 42 | 28 | +14 | 44 |
6 | Cambridge City | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
6 | Barnsley | 27 | 12 | 6 | 9 | 40 | 37 | +3 | 42 |
7 | Leyton Orient | 26 | 12 | 5 | 9 | 34 | 22 | +12 | 41 |
8 | Reading | 26 | 12 | 5 | 9 | 40 | 38 | +2 | 41 |
9 | Bolton | 27 | 12 | 5 | 10 | 40 | 41 | -1 | 41 |
10 | Charlton Athletic | 26 | 11 | 7 | 8 | 32 | 26 | +6 | 40 |
11 | Lincoln City | 27 | 10 | 8 | 9 | 34 | 31 | +3 | 38 |
12 | Mansfield Town | 25 | 11 | 4 | 10 | 34 | 31 | +3 | 37 |
13 | Rotherham | 26 | 9 | 7 | 10 | 30 | 30 | 0 | 34 |
14 | Blackpool | 26 | 8 | 10 | 8 | 37 | 38 | -1 | 34 |
15 | Stevenage | 25 | 9 | 7 | 9 | 20 | 22 | -2 | 34 |
16 | Wigan | 26 | 9 | 6 | 11 | 26 | 26 | 0 | 33 |
17 | Exeter | 27 | 9 | 5 | 13 | 30 | 36 | -6 | 32 |
18 | Bristol R. | 26 | 8 | 4 | 14 | 25 | 41 | -16 | 28 |
19 | Peterboro | 27 | 7 | 6 | 14 | 43 | 52 | -9 | 27 |
20 | Northampton | 27 | 6 | 9 | 12 | 24 | 40 | -16 | 27 |
21 | Burton | 27 | 4 | 9 | 14 | 27 | 42 | -15 | 21 |
22 | Cambridge United | 26 | 5 | 6 | 15 | 27 | 47 | -20 | 21 |
23 | Crawley Town | 25 | 5 | 6 | 14 | 25 | 46 | -21 | 21 |
24 | Shrewsbury | 26 | 5 | 5 | 16 | 26 | 46 | -20 | 20 |
Athugasemdir