lau 25. mars 2023 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Aguero: Messi gæti snúið aftur til Barcelona
Mynd: Getty Images

Framtíð argentínsku stórstjörnunnar Lionel Messi er óljós en samningur hans við Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain rennur út í sumar.


Messi, sem verður 36 ára í júní, er talinn meðal bestu fótboltamanna heims þrátt fyrir hækkandi aldur. Hann leiddi Argentínu til fyrstu gullverðlauna sinna á HM í fótbolta síðan 1986 og hefur komið með beinum hætti að 35 mörkum í 32 keppnisleikjum með PSG á tímabilinu - 18 mörk skoruð og 17 stoðsendingar.

„Messi veit að dyrnar eru alltaf opnar fyrir endurkomu til Barca. Við verðum að bíða og sjá. Ég mun gera allt í mínu valdi til að laga sambandið á milli Messi og Barca," segir Joan Laporta, forseti Barcelona.

Sergio Agüero, fyrrum samherji Messi hjá argentínska landsliðinu, telur góðar líkur á því að félagi sinn snúi aftur í spænska boltann.

„Ef Laporta stígur rétt skref þá held ég að Messi geti snúið aftur til Barcelona. Mér líður eins og það séu 50% líkur á að Messi komi aftur í sumar. Ef þú spyrð mig þá ætti Leo að klára ferilinn hjá Barca. Þetta er heimilið hans, hann verður að klára ferilinn þar. Laporta verður að sannfæra hann."

Það eru ekki aðeins Börsungar sem vilja Messi. Heimsmeistaranum líður mjög vel hjá PSG og vill franska stórveldið halda honum innan sinna raða, en Messi tekur ekki ákvörðun fyrr en lengra líður á tímabilið.

„Við erum að gera okkar besta til að halda Leo Messi, Kylian Mbappe og Sergio Ramos hjá félaginu," segir Nasser Al-Khelaifi, forseti PSG. „Við förum varlega í allar viðræður því við viljum ekki gera nein mistök sem við gætum svo séð eftir."


Athugasemdir
banner
banner
banner